Suðurnesjalína 2 verður tekin í rekstur í haust að óbreyttu en öll álitaefni henni tengdri hafa verið leyst, í hið minnsta í bili. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í síðustu viku kröfu nokkurra landeigenda í Sveitarfélaginu Vogum um að ógilda ákvörðun ráðherra um að veita Landsneti heimild til eignarnáms réttinda.
Áður hafði verið samið við alla aðra landeigendur á línuleiðinni auk þess sem öll sveitarfélögin höfðu veitt framkvæmdaleyfi. Ekki liggur fyrir hvort landeigendurnir muni áfrýja en héraðsdómur var skipaður þremur dómurum sem allir voru sammála í sinni niðurstöðu. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að niðurstaða héraðsdóms komi ekki á óvart.
„Niðurstaðan var bara mjög skýr og afdráttarlaus að okkar mati og við vonumst til þess að landeigendurnir sætti sig við hana, af því að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að geta klárað línuna án frekari tafa í ljósi stöðunnar sem uppi er á Reykjanesi,“ segir Guðmundur Ingi.
Áralöng bið vonandi á enda
Framkvæmdir hófust í fyrra á þeim svæðum sem samningar við landeigendur höfðu náðst og eins og áður segir er stefnt á að taka línuna í rekstur í haust. Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir það góðar fréttir ef niðurstaða héraðsdóms í síðustu viku verði til þess að hægt sé að ljúka framkvæmdunum fljótlega.
„Suðurnesjalína 2 mun tryggja okkar viðskiptavinum á Suðurnesjum aukið afhendingaröryggi og meiri afköst. Ekki veitir af því hér fjölgar íbúum og það er mikill vöxtur í atvinnulífinu,“ segir hann.
„Það hefur lengi verið áskorun að það sé aðeins ein flutningslína til svæðisins þar sem Suðurnesjalína 1 hefur takmarkaða afkastagetu auk þess sem bilanir á henni þýða rafmagnsleysi á öllu Reykjanesinu sem er ekki ásættanlegt fyrir svo stórt svæði með þjóðhagslega mikilvæga starfsemi eins og Keflavíkurflugvöll. Nú horfir þetta vonandi loks til betri vegar.“
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, tekur í sama streng. „Það er mikil þörf og mikil vöntun, og við erum búin að bíða lengi. Bæði vantar okkur meira rafmagn inn á svæðið en aðallega snýst þetta um afhendingaröryggi raforku,“ segir hann. Þá gætu áhrifin verið víðtækari.
„Við hugsum þetta oftast í aðra áttina, að fá rafmagn hingað inn, en þetta hefur auðvitað líka eitthvað að segja um afhendingaröryggi raforku úr þeim virkjunum sem eru hér á svæðinu og fyrirtæki sem eru að selja raforku frá sér, það er HS Orka og mögulega fleiri í framtíðinni. Þannig þetta er bara hið besta mál, hvernig svo sem á það er litið.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.