Rafvæddasta bílaleiga landsins segir þeirri vegferð nú sjálfhætt í bili, þar sem enginn áhugi sé lengur á að leigja slíka bíla. Stóraukin opinber gjaldtaka veldur því að rafbílaleigubíll er nú orðinn dýrari leigukostur en sambærilegur bensínbíll í flestum tilfellum.
„Við erum ekki búin að panta neina rafbíla á þessu ári því við sjáum það bara að þessar breytingar hafa dregið verulega úr eftirspurn og það er til lítils að kaupa bíla sem ekki leigjast út,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar.
Ekki aðeins hafi undanþága leigugjalds rafknúinna bílaleigubíla frá virðisaukaskatti verið afnumin heldur þurfi leigjendur rafbíla nú að greiða kílómetragjald rétt eins og eigendur slíkra bíla.
Aðeins 5% ódýrari í akstri
Sem kunnugt er var lagt 6 króna gjald fyrir hvern ekinn kílómetra á alla rafbíla um áramótin, sem bætir sem dæmi um 2.500 krónum við bílferð aðra leið til Akureyrar frá borginni og yfir 4.000 krónum sé ferðinni heitið austur á Egilsstaði.
Að virðisaukaskattinum meðtöldum kostar nú um 5 þúsund krónum eða heilum þriðjungi meira að leigja rafbíl í einn dag og keyra hann 400 kílómetra miðað við gefnar forsendur.
Miðað við eyðslu upp á 20 kílóvattstundir á hverja 100 kílómetra og hrað- og hæghleðslu til helminga hjá Orku náttúrunnar kostar hver ekinn kílómetri á Zoe nú alls 15,6 krónur að meðtöldu gjaldinu nýja.
Kostnaðurinn á Kia Picanto bensínbílnum er svo gott sem sá sami eða 16,4 krónur á hvern kílómetra miðað við uppgefna 5,3 lítra á hundraðið og 310 króna lítraverð á bensíni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.