Sjálfsagt eru líkurnar stjarnfræðilega litlar eða því sem næst ómögulegt að virtustu tónlistarverðlaun heims og mesta viðurkenning sem tónskáldi getur hlotnast í veröldinni falli í skaut tveggja Íslendinga. Síðasta haust má því segja að í íslensku tónlistarlífi hafi hið ómögulega hafi átt sér stað þegar píanóleikarinn Víking Heiðar Ólafsson hlaut Gramophone-verðlaunin sem tónlistarmaður ársins, því aðfaranótt sama dags hafði tónskáldið Hildur Guðnadóttir veitt Emmy-verðlaunum viðtöku fyrir tónlistina í þáttaröðinni Chernobyl.

Áhyggjur eldri kynslóða af þeirri sem taka á við eru eðlilegur hluti af lífsins gangi eins og aldamótakynslóðin hefur ekki farið varhluta af - nema síður sé. Allar slíkar áhyggjur hurfu hins vegar eins og dögg fyrir sólu í haust hvað íslenskt tónlistarlíf varðar þegar tveir íslenskir fulltrúar aldamótakynslóðarinnar á sviði tónlistar tóku við einhverjum virtustu viðurkenningum heimsins fyrir framúrskarandi árangur hvor á sínu sviði.

Á Gramophone-verðlaunahátíðinni í september var Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari valinn tónlistarmaður ársins, en Gramophone-verðlaunin eru stundum sögð vera Óskarsverðlaunin í heimi klassískrar tónlistar. Ef haldið er áfram með samlíkinguna má segja að viðurkenning Víkings sé á pari við mynd ársins á Óskarnum.

Aðfaranótt verðlaunahátíðar Gramophone, sem haldin var í Lundúnum 16. september, var annar íslenskur tónlistarmaður, Hildur Guðnadóttir, staddur í Los Angeles þar sem hún tók við Emmy-verðlaununum fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl.

Þrátt fyrir ungan aldur, Hildur er 37 ára og Víkingur 35 ára, hafa þau bæði verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um nokkurt skeið, komið víða við og notið mikillar velgengni.

Meðal fremstu einleikara heims

Víkingur lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Peters Maté, en áður lærði hann hjá Erlu Stefánsdóttur. Víkingur var aðeins sautján ára þegar hann lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á útskriftartónleikum sínum. Þá lá leiðin til New York þar sem hann lagði stund á framhaldsnám við hinn fræga tónlistarháskóla Juilliard og lauk þaðan bachelors- og meistaranámi árið 2008. Aðalkennarar hans við Juilliard voru Jerome Lowenthal og Robert McDonald. Einnig sótti Víkingur píanótíma hjá einleikaranum Ann Schein sem nam hjá Arthur Rubinstein í upphafi ferils síns á sjöunda áratugnum.

Víkingur snéri heim að námi loknu og hlaut íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2009. Hann var vel að þeim kominn því einleikaraferill Víkings hefur síðan náði meiri hæðum en bjartsýnustu spár sögðu til um. Mörgum er minnisstætt þegar Víkingur lék píanókonsert Edvards Grieg með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladímírs Ashkenazy á opnunartónleikum tónlistarhússins Hörpu í Reykjavík 2011.

Víkingur er jafnframt stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Midsummer Music, sem haldin hefur verið árlega í Hörpu síðan 2012. Hátíðin hlaut tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2012, sem tónlistarviðburður ársins í sígildri og samtímatónlist, og Rogastans, nýsköpunarverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Árið 2016 var tilkynnt að Víkingur hefði skrifað undir útgáfusamning við tólistarútgáfuna Deutsche Grammophon. Síðan þá hefur Víkingur verið meðal eftirsóttustu einleikara sinnar kynslóðar og ferðast hann víða um heim til að spila með mörgum af helstu hljómsveitunum í frægustu tónlistarhúsum heimsins. Fyrsti hljómdiskur hans hjá Grammophon kom út í janúar 2017 og var helgaður píanóverkum bandaríska tónskáldsins Philips Glass. Diskurinn hlaut einróma lof gagnrýnenda og var m.a. valinn með bestu klassísku hljómdiskum ársins 2017 á vef NPR, Gramophone og New York Times.

Víkingur Heiðar hlaut verðlaunin sem tónlistarmaður ársins einkum fyrir aðra plötu sína á vegum Deutsche Grammophon þar sem hann flytur hljómborðsverk Johanns Sebastians Bach. Platan hlaut einróma lof gagnrýnenda og hefur hlotið ótal verðlaun og má nefna tónlistarverðlaun BBC Music Magazine fyrir bestu plötu ársins, Opus Klassik verðlaunin fyrir bestu píanóplötu ársins og Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir flutning og plötu í flokki klassískrar tónlistar.

Hildur og Jókerinn

Hildur Ingveldar Guðnadóttir var samtíma Víkingi í Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem hún lagði stund á sellóleik. „Ég var ekki alltaf góður sellónemandi og samband mitt við sellóið var á tíðum flókið. Mér fannst t.d. erfitt að fylgja fyrirmælum kennarans og átti erfitt með að samþykkja að til væri rétt og röng leið til að spila tónlist," sagði Hildur nýlega í viðtali við Access Hollywood.

Í framhaldi af því fór hún í Listaháskóla Íslands og Listaháskóla Berlínar (Universität der Künste) til þess að læra tónfræði/tónsmíðar og nýmiðlun. Hún var fyrsti nemandi skólans sem útskrifaðist af nýmiðlabraut Listaháskóla Íslands 2005 og ári seinna kom út fyrsta sólóhljómplata hennar, Lost in Hildurness, þar sem hún spilaði sjálf á öll hljóðfærin og stjórnaði upptökum.

Hún spilaði með fjölda hljómsveita á þessum árum, tónlist sem er nær því að vera tilraunakennd popptónlist en klassísk eða nútímatónlist, og má þar nefna Pan Sonic, Múm og stórsveit Nix Noltes. Auk þess að spila á selló og stunda tónsmíðar hefur hún einnig starfað sem söngvari og kórstjóri á fjölbreyttum ferli sínum.

Hildur hefur starfað með fjölda lista- og tónlistarmanna, þar á meðal tónskáldinu Jóhanni Jóhannssyni, sem lést árið 2018, en saman sömdu þau m.a. tónlistina fyrir myndina Mary Magdalene sem var frumsýnd sama ár. Áður hafði Hildur samið tónlist fyrir heimildarmyndir en síðustu fjögur ár hefur kvikmyndatónlist verið helsta viðfangsefni hennar.

Þættirnir Chernobyl voru frumsýndir í vor og vakti tónlist Hildar strax mikla athygli og lof gagnrýnenda. Tónlist þáttanna er sögð ómstríð, drungaleg og ægifögur og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og almennings. Hildur segir að hvert einasta hljóð í tónlistinni komi úr kjarnorkuveri og leitaði hún þá í kjarnorkuverið í Litháen þar sem þættirnir voru teknir upp fyrir innblástur og upptökur fyrir tónlist sína. Auk þess að hljóta Emmy-verðlaunin hefur tónlistin í Chernobyl verið tilnefnd til Grammy-verðlaunanna sem veitt verða seinna í vetur.

Hildur samdi einnig tónlistina fyrir kvikmyndina Joker sem óhætt er að segja hafi verið stórmynd ársins 2019 og er talin líkleg til að hreppa Óskarinn sem besta mynd ársins.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Vðskiptablaðsins og Fjálsrar verslunar sem kom út í dag. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.