Aspire ehf. er nýlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í nútímaöryggislausnum þar sem lögð er áhersla á nýjustu tækni til varnar þjófnaði. Fyrirtækið er byggt á áratuga reynslu og þekkingu eigenda á smásölumarkaði.
Félagið var stofnað í lok árs 2023 af Erni Héðinssyni og Alastair Kent en Aspire þjónustar meðal annars Elko, Hagkaup, Vodafone, Nova og Cintamani.
Örn Héðinsson segir í samtali við Viðskiptablaðið að Aspire fái þekkingu sína frá bandaríska öryggisfyrirtækinu InVue, sem sé búið að hasla sér mikinn völl undanfarinn áratug þegar kemur að þjófavörnum fyrir verslanir og smásölu.
„Þetta byggist upphaflega á kerfi sem kallast OneKey Ecosystem en þar fær hver og einn starfsmaður einstakan lykil sem gengur að öllum læsingum. Lykillinn er skráður á þann starfsmann og er einnig hægt að fylgjast rafrænt með því í hvað lykillinn er notaður í.“
Hann segir þetta vera gríðarlega öflugt þjófavarnarkerfi en á sama tíma flýti kerfið einnig fyrir þjónustu og stuðli að jákvæðari upplifun viðskiptavinarins.
„Tökum Vodafone á Íslandi, sem notast við þetta kerfi, sem dæmi. Starfsmaður þar getur meðhöndlað allar vörur sem hafa þjófavörn á sér með þessum eina lykli. Þegar þú sem viðskiptavinur kemur inn í búðina þá getur starfsmaðurinn opnað alla þá síma sem þú vilt skoða með þessum eina lykli.“
Örn segir að starfsmaður geti þá einnig læst niður alla síma rafrænt með einum takka ef það myndast ástand í versluninni. Hann bætir við að Aspire bjóði einnig upp á fleiri öryggislausnir fyrir matvöruverslanir og fleira og að tæknin hafi þegar sýnt sig og sannað.
„Á síðasta ári voru til dæmis þjófar sem bökkuðu bíl inn í verslun Nova í Lágmúla og stálu öllu steini léttara. Nova var hins vegar búið að setja upp þjófavörnina okkar á alla Samsung-símana sína og gátu þjófarnir því ekki stolið einum einasta Samsung-síma.“