Ný stjórn var á dögunum kjörin á aðalfundi nýsköpunarfyrirtækisins Mussila. Sigurlína Ingvarsdóttir, sem hefur getið sér góðs orðs í tölvuleikjaiðnaðinum á erlendri grundu, tekur við stjórnarformennsku af Þórði Magnússyni sem hefur gegnt starfinu síðastliðin þrjú ár. Auk Þórðar fer Kjartan Ólafsson úr stjórn eftir þriggja ára stjórnarsetu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Sigurlína Ingvarsdóttir er margreyndur stjórnandi í tölvuleikjaiðnaðinum. Sigurlína stýrði þróun Star Wars Battlefront sem er mest seldi Star Wars tölvuleikur allra tíma. Hún stýrði þá framtíðarstefnu EA Sports FIFA, knattspyrnutölvuleiksins sem er eitt stærsta tölvuleikjavörumerki sögunnar. Þar stýrði hún einnig gerð FIFA Volta, nýrrar viðbótar við FIFA, sem kom út í fyrsta skipti í FIFA 20 útgáfunni. Sigurlína situr einnig í stjórnum fyrirtækjanna Solid Clouds, Aldin Dynamics, Carbon Recycling International og vaxtarsjóðsins Eyris Vaxtar.

Þrír nýir stjórnarmenn voru kjörnir í stjórn félagsins, fyrrnefnd Sigurlína Ingvarsdóttir, Jóhann Þorvaldur Bergþórsson og Vala Halldórsdóttir. Auk þeirra mynda hina nýju stjórn Marie Claire Maxwell, yfirmaður tækni- og nýsköpunar hjá Business Sweden og Snæbjörn Sigurðsson fjárfestingastjóri hjá Íslandsbanka.

Jóhann Þorvaldur Bergþórsson , kemur inn í stjórn sem tæknisérfræðingur. Hann er einn af stofnendum Plain Vanilla og TeaTime. Jóhann leiddi m.a. tækniteymi á leikjunum Quiz Up og Trivia Royal sem urðu á meðal vinsælustu spurningaleikja heims.

Vala Halldórsdóttir, kemur inn í stjórn sem sérfræðingur í sölu og markaðsmálum. Hún var yfir markaðssetningu og sölu hjá Teatime og Plain Vanilla auk þess sem hún er stjórnarmaður í Saga Film og fyrrverandi framkvæmastjóri Visku og Framtíðarinnar.

370% aukning í sölutekjum

Í fréttatilkynningunni segir að á aðalfundinum hafi Gísli Páll Balvinsson frá KPMG farið yfir ársreikning félagsins fyrir rekstrarárið 2020. Þar hafi m.a. komið fram að sölutekjur Mussila hafi aukist um 370% milli áranna 2019-2020.

„Í sumar lauk Mussila fjármögnun í gegnum Funderbeam og réði til sín fjóra reynslumikla starfsmenn, meðal annars tók Naiara Alberdi við sem markaðsstjóri, en hún starfaði áður, líkt og Jóhann og Vala, hjá Plain Vanilla og Teatime.

Á síðastliðnum mánuðum hefur Mussila gert samninga við tvo stærstu dreifingaraðililana fyrir skólasölu í Svíþjóð, Skolon og Laremedia. Fyrr í sumar bárust síðan fréttir af því að Kópavogsbær hefði gert þriggja ára samning við Mussila um að öll börn í Kópavogsbæ í öðrum og þriðja bekk fái aðgang að stafrænu tónlistarnámi í gegnum Mussila og nú er skólasalan komin á fullt,“ segir í fréttatilkynningu.

Sigurlína Ingvarsdóttir, nýr stjórnarformaður Mussila:

„Ég er mjög spennt fyrir því að setjast í stjórn hjá Mussila með þessu frábæra fólki. Það eru gríðarleg tækifæri í stafrænum menntunarlausnum fyrir börn og Mussila hefur byggt frábæran tækni- og þekkingargrunn, fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir tónlistarkennslu sína og byggt upp sterkt teymi. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá þessu félagi og ég hlakka til samstarfsins með þeim."

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila:

„Mussila hefur nú fengið til sín reynslumikið fólk úr nýsköpun og tölvuleikjaiðnaðinum til að sinna stjórnarmennsku og ráðgjöf fyrir fyrirtækið á næstu árum. Stjórnarmeðlimirnir koma með yfirgripsmikla þekkingu á öllum hliðum fyrirtækisins; stefnumótun, tæknimálum, markaðsmálum og fjármögnun. Ég hlakka gífurlega til samstarfsins."

Í fréttatilkynningu er Mussila lýst með eftirfarandi hætti:

„Mussila var stofnað árið 2015, af Himari Þór Birgissyni og Margréti Sigurðardóttur. Jón Gunnar Þórðarson tók við sem framkvæmdastjóri félagsins í upphafi 2020 og í dag starfa þar níu manns, auk þessarar fimm manna stjórnar sem tekur nú til starfa. Markmið Mussila er að veita börnum um allan heim hágæða menntatækni og auðvelda þeim nám í gegnum leik.“