Stjórnvöld í Indónesíu hafa ákveðið að halda uppi sölubanni á iPhone 16 snjallsímunum þrátt fyrir að Apple hyggist fjárfesta fyrir einn milljarð dala í nýrri verksmiðju í landinu. Reuters greinir frá.
Indónesía stöðvaði sölu á iPhone 16, nýjasta snjallsíma Apple, í lok október þar sem tæknifyrirtækið hefur ekki uppfyllt kröfur stjórnvalda um fjárfestingu í landinu. Apple uppfyllti m.a. ekki skilyrði um að 35% af íhlutum síma sem seldir eru í landinu, séu framleiddir í Indónesíu.
Iðnaðarráðherra Indónesíu, Agus Gumiwang Kartasasmita, sagði að Apple hafi náð samkomulagi um að byggja verksmiðju til að framleiða AirTag staðsetningabúnaðinn í Batam. Verksmiðjan muni sjá um 65% af heildarframleiðslu á AirTag tækjunum.
Agus, sem fundaði með fulltrúum Apple í gær, sagði að ekki sé tilefni til þess að veita Apple leyfi fyrir sölu á iPhone 16 út af ofangreindu skilyrði um íhluti. AirTag sé fylgihlutur en ekki íhlutur.
Hann sagði stjórnvöld hafa lagt fram aðra lausn á málinu en Apple hafi ekki verið búið að svara tillögunni. Boltinn sé nú í höndum Apple.
Tæknirisinn hafði í nóvember boðist til að auka umfang fjárfestinga í Indónesíu um 100 milljónir dala til að fá banninu aflétt en stjórnvöld höfnuðu boðinu.
Ofangreint bann nær aðeins til iPhone 16 sem verslað er með innlands en neytendur geta áfram keypt símana erlendis og tekið þá með sér heim, svo lengi sem nota símana í persónulegum tilgangi en selja þá ekki áfram.
Ráðuneytið áætlar að um 9 þúsund iPhone 16 símar hafa farið um landamærin á lögmætan máta.