Nýgengni krabbameins í ristli meðal yngra fólks í Bandríkjunum hefur aukist verulega á tveimur áratugum. Einnig greinist krabbameinið á hættulegra stigi. Þetta kemur í skýrslu bandaríska krabbameinsfélagsins sem fjallað er um í Wall Street Journal.

Bandaríska krabbameinsfélagið sagði á miðvikudag að um 20% nýrra greininga á krabbameini í ristli árið 2019 væru hjá sjúklingum undir 55 ára aldri, samanborið við 11% árið 1995.

Um 60% nýrra krabbameina í ristli árið 2019 greindust á háu stigi, samanborið við 57% árið 1995, áður en skimun varð algengari.

Tilfellum hefur fækkað

Tilfellum hefur þó fækkað og dánartíðni lækkað þökk sé skimunum, betri meðferðum og fækkun áhættuþátta eins og reykinga, að sögn höfunda skýrslunnar.

Hins vegar vita krabbameinslæknar ekki hvað veldur því að yngra fólk greinist í svo auknum mæli og að sífellt fleiri greinist með ólæknanlegt krabbamein.

Krabbamein í ristli er ein algengasta tegund krabbameins í Bandaríkjunum og næstbanvænasta á eftir lungnakrabbameini. Krabbameinið er algengast meðal fólks á aldrinum 65 til 74 ára en fjöldi greininga meðal fólks undir 50 ára aldri hefur hækkað hratt.

Andlát leikarans Chadwick Boseman, en hann lést úr ristilkrabbameini, vakti mikla athygli á þessari alvarlegu þróun.

Skimum við brjóstakrabbameini hófst árið 1986. Lengi hafa verið átök vegna þess en tuttugu ár eru síðan stjórnaráðið var lýst upp í einu slíku. Ástríður Thorarensen forsætisráðherrafrú kveikti ljósin við Stjórnarráðshúsið.
© Mbl (Mbl)

Skimanir að hefjast á Íslandi

Íslenska krabbameinsfélagið segir á vef sínum að meðalaldur við greiningu sé 69 ár og er sjaldgæft að krabbameinið greinist fyrir fimmtugt. Félagið ráðleggur þeim sem eru á aldrinum 50-75 ára ættu að ræða við lækni um leit að ristil- og endaþarmskrabbameini.

Ristilkrabbamein er í öðru sæti þegar kemur að krabbameinum sem dánarorsök, rétt eins og Bandaríkjunum.

Í fyrra var greint frá því að reglubundin skimun fyrir krabbameini í ristli myndi hefjast í ár hér á landi.

Í samtali við Ríkisútvarpið í mars 2022 sagði Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingamiðstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að hann kynni ekki skýringar á því hvers vegna skimanir hafi ekki hafist fyrr.

„Ég í rauninni kann ekki góðar skýringar á því. Krabbameinsfélaginu var falið að undirbúa þessar skimanir og lauk þeim undirbúningi fyrir fimm árum en síðan hefur ekki gerst neitt.“