Áætlanir stjórnvalda gera nú ráð fyrir að heildarkostnaður við nýbyggingar Landspítalans á Hringbraut muni nema 79,1 milljarði króna. Það er um 16,3 milljörðum hærra en upphaflegt kostnaðarmat, uppfært til verðlags í desember síðastliðnum, sem var 62,8 milljarðar. Morgunblaðið greinir frá.

Breytingin skýrist af auknu umfangi verkefnisins að sögn Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala ohf. Ákveðið hafi verið að stækka meðferðarkjarnann, stærstu byggingu verkefnisins, úr 53 þúsund í 70 þúsund fermetra vegna endurrýni á ferlum starfseminnar og aukinnar kröfu til hússins um að standa af sér öflugri jarðskjálfta en gert er ráð fyrir í byggingarreglugerðum.

Samhliða stækkuninni urðu veggir einnig mun þykkari og meira magn af stáli notað í húsið. Sams konar breytingar voru gerðar á rannsóknahúsinu sem er 17 þúsund fermetrar. Gunnar segir þessar breytingar eiga stærsta þáttinn í kostnaðarhækkununum ásamt verðhækkunum á mörkuðum.

Hann bætir við að ákveðið hafi verið að stækka gatnagerðarverkefnið í kringum spítalann og horfa til framtíðar með því að taka allt nýbyggingarsvæðið við Hringbraut fyrir. Bætt hefur verið við bílakjallara undir miðjutorgi svæðisins, sem rúmar 200 bíla.

Nýbyggingar Hringbrautarverkefnisins verða alls fjórar. Sjúkrahótelinu var afhent í upphafi árs 2019, meðferðarkjarninn er á framkvæmdastigi en rannsóknahús og bílastæðahús eru á hönnunarstigi.

Áfallinn kostnaður í verkefninu frá 2010 er 12,4 milljarðar króna sem að stórum hluta er bygging sjúkrahótels, gatnagerð, hönnunar- og skipulagsgerð og jarðvinna meðferðarkjarna, að því er kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins um kostnað við byggingu nýs Landspítala.

Í svari ráðuneytisins segir að frávik kostnaðar við sjúkrahótel voru 8,3% og var það innan skilgreindra óvissumarka. Gatnagerðarverkefni er nýlokið og stendur skilamat þess verkefnis yfir. Frumniðurstöður bendi til þess að niðurstaða kostnaðar sé innan óvissumarka og ófyrirséðs kostnaðar.