Eignarhaldsfélagið Holdgas ehf. hefur fest kaup á öllu hlutafé í Gastec ehf. Eignarhaldsfélagið, sem er í jafnri eigu Kögunarhæðar ehf. og Tindarhafnar ehf., kaupir Gastec af Þráni Sigurðssyni og Hnikarri Antonssyni en þeir hafa átt og rekið Gastec í yfir 20 ár.

Í tilkynningu segir að velta Gastec sé um 400 milljónir en fyrirtækið hefur sérhæft sig í innflutningi og sölu á gasbúnaði, varmadælum, rafsuðutækjum, slípivörum, bílavörum og tengdum vörum. Gastec selur þá einnig rafhjól.

Björn Sigtryggsson, nýr framkvæmdastjóri og Árni Heiðar Gylfason, nýr sölustjóri, eru hæstánægðir með kaupin og segja að þau byggist meðal annars á áhuga þeirra á slíkum rekstri, viðskiptasamböndum og þeim orðstír sem Gastec býr yfir.

„Þráinn og Hnikarr hafa byggt upp og rekið magnað fyrirtæki. Við erum spenntir að taka við keflinu og lítum björtum augum til framtíðar. Hjá Gastec eru mörg öflug umboð sem falla mjög vel að þekkingu og reynslu nýrra eigenda. Þá starfar hjá fyrirtækinu margt öflugt starfsfólk. Hnikarr verður áfram með okkur og Þráinn verður í góðu sambandi,“ segja Árni og Björn.

Meðeigendur þeirra Björns og Árna eru þeir feðgar Viggó Jónsson og Elfar Már Viggósson, eigendur Rafstillingar og Reka í Kópavogi. Þeir taka undir orð félaga sinna og segjast hlakka til að takast á við það verkefni að gera góðan rekstur enn betri með auknu vöruframboði og aukinni þjónustu.