Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk hefur birt jákvæðar rannsóknarniðurstöður úr tilraun með nýja þyngdarstjórnunarlyfið sitt, amycretin, sem gæti orðið mikilvægur liður í baráttunni gegn offitu samkvæmt Børsen.
Sjúklingar í klínískri rannsókn náðu um 22% þyngdartapi á 36 vikum er þeir tóku hámarksskammt af lyfinu.
Novo Nordisk greindi dönsku kauphöllinni frá niðurstöðunum fyrir opnun markaða og hafa hlutabréf félagas hækkað um meira en 11% í viðskiptum dagsins.
Niðurstöðurnar setja amycretin í beina samkeppni við annað lyf Novo Nordisk, Cagrisema, sem er einnig í þróun.
Cagrisema sýndi aðeins hærra þyngdartap, eða 22,7%, en tók sjúklinga mun lengri tíma eða 68 vikur að ná þeim árangri.
Rannsóknarniðurstöður dagsins gefa fjárfestum traust um að Novo Nordisk sé á réttri leið í þróun næstu kynslóðar þyngdarstjórnunarlyfja en niðurstöðurnar með Cagrisema voru vonbrigði.
Hlutabréfaverð Novo Nordisk féll um 21% í desember eftir niðurstöðurnar.
Holst Lange hefur áður sagt að vonir standi til að amycretin nái að framkalla minnst 25% þyngdartap, mögulega umfram árangur Cagrisema.
„Við gerum ráð fyrir að amycretin geti náð að minnsta kosti sama árangri og Cagrisema. Hvort það verði aðeins meira eða minna get ég ekki sagt fyrr en við höfum gögnin í höndunum,“ sagði hann við Børsen í september.