Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Aldin Dynamics, sem skapar tækni og upplifanir fyrir sýndarveruleika, margfaldaði tekjur sínar fyrr í sumar í kjölfar þess að vara félagsins náði mikilli útbreiðslu (e. viral). Varan, Waltz of the Wizard, gerir notendum kleift að stíga inn í ævintýralegan heim og kynnast dularfullum sögupersónum. Til marks um útbreiðsluna hefur varan fengið yfir 100 milljónir áhorfa um heim allan.

Hrafn Þorri Þórisson, framkvæmdastjóri Aldin, stofnaði fyrirtækið árið 2013 ásamt Gunnari Steini Valgarðssyni. „Við höfum einblínt á að skapa sögupersónur sem hegða sér eins og lifandi persónur með hjálp sýndarveruleika. Notendur þurfa ekki að notast við stýripinna heldur stýra þeir ferðinni með höndunum. Við höfum hannað heim þar sem markmiðið er að notendur upplifi að þeir stígi inn í annan veruleika. Við viljum ekki að fólki líði eins og það sé að spila tölvuleik,“ segir Hrafn.

Rekstur Aldin hefur að sögn Hrafns gengið vel undanfarin ár. „Rekstur félagsins hefur um nokkuð langt skeið verið sjálfbær og tekjuvöxtur sumarsins hjálpar til við að styrkja reksturinn enn frekar. Við erum með nýjar vörur í býgerð og aukin sala hjálpar að sjálfsögðu til við að fjármagna þá vinnu.“

Árið 2018 lauk Aldin 100 milljóna króna fjármögnun sem leidd var af Crowberry Capital með þátttöku Investa og Tækniþróunarsjóðs Íslands. Frá því að þeirri fjármögnun lauk hefur ekki reynst þörf á að sækja meira fjármagn. Hrafn segir félagið fullfjármagnað og vel í stakk búið til að standa straum af kostnaði við framleiðslu nýrra vara. Þó séu líkur á að stór tækifæri sem gætu komið upp kalli á að nýtt fjármagn verði sótt.

Spurður um hvort fyrirtækið stefni á að ráða inn nýtt starfsfólk til að auka umsvif enn frekar segir Hrafn að Aldin hafi almennt séð reynt að hafa fáa hæfileikaríka starfsmenn í vinnu hjá fyrirtækinu. „Við höfum mest verið fjórtán en erum sex í dag. Það getur vel verið að við sjáum þörf fyrir að fjölga starfsmönnum en eins og er eru engin áform um slíkt. Fyrst og fremst viljum við hafa gott fólk í vinnu sem hefur brennandi áhuga á því sem við erum að gera.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.