Heildarkostnaður við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut hljóðar upp 210 milljarða króna. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.
„Heildaráætlun Nýja Landspítala (NLSH) um framkvæmdir við Landspítala var kynnt nýlega af hálfu ríkisstjórnarinnar og hljóðar upp á um 210 milljarða. Allar kostnaðartölur frá og með 2022 eru á verðlagi í október 2022. Áfallinn kostnaður til og með 2021 er úr ársreikningum NLSH á verðlagi hvers árs,” segir í svari ráðuneytisins.
Stóð í 80 milljörðum árið 2021
Árið 2021 var greint frá því að áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að heildarkostnaður við nýbyggingar Landspítalans á Hringbraut mundi nema 79,1 milljarði króna.
Það var þá um 16,3 milljörðum hærra en upphaflegt kostnaðarmat, uppfært til verðlags í desember 2020, sem var 62,8 milljarðar.
Ákveðið var síðan að stækka meðferðarkjarnann við Nýja Landspítalannn úr 53 þúsund í 70 þúsund fermetra.