Arion banki skilaði fyrir helgi inn umsögn um frumvarpsdrög fjármálaráðherra um áformað útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka og leggur þar fram nokkrar breytingartillögur um „veigamikil atriði“.
Arion segir að af frumvarpsdrögunum að dæma virðist sem ekki sé ráðgert að fá utanaðkomandi aðili til að annast hlutverk umsjónaraðila útboðsins, „þ.e. aðili sem annast framangreinda ráðgjöf og samræmingarhlutverk milli allra söluaðila eins og alla jafna er hefðbundið“. Þess í stað virðist einungis vera gert ráð fyrir að ráðinn verði sérstakur umsjónaraðili tilboðsbóka.
„Framangreint fyrirkomulag fer gegn viðteknum venjum á fjármálamarkaði og getur að óbreyttu leitt til þess að lægra verð fáist fyrir hlut ríkisins en ella.“
Hefðbundið sé að í almennum útboðum sé ráðinn umsjónaraðili útboðsins – jafnan einn, en allt að þrjá í stærri verkefni - sem annast alla yfirumsjón framkvæmdar þess og sinnir nauðsynlegu samræmingarhlutverki milli umbjóðenda og söluaðila. Þessu fyrirkomulagi sé ætlað að tryggja skipulegt og faglegt ferli.
Þá virðist ekki ráðgert að ráðherra njóti ráðgjafar við mat markaðsaðstæðna, til að mynda með tillit til þess hvenær skuli ráðast í útboð eða við ákvörðun á hvernig hlutfallsleg skipting stærðar milli tilboðsbóka skuli vera.
Segja aðferðina nýlundu á íslenskum markaði
Arion lítur svo á miðað við frumvarpsdrögin sé gert ráð fyrir að öllum aðilum, að Íslandsbanka fráskildum, sem hafa heimild til að hafa með höndum umsjón almenns útboðs sé heimilt að fara með söluumboð á eignarhlut ríkisins í bankanum, hafi þeir skilað inn umsókn um slíkt.
„Þetta þýðir í reynd að þeir aðilar sem fara með söluumboð ríkisins kynnu að skipta tugum, bæði innlendir og erlendir,“ segir í umsögn Arion. Í henni er nánar lýst því hvað felist í þeirri aðferð, sem bankinn telur vera nýlundu á íslenskum markaði, sem fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að verði stuðst við í útboðinu.
„Sú framkvæmd sem frumvarpið ráðgerir er hins vegar til þess fallin að vera óskipuleg þar sem margir og ólíkir söluaðilar munu bítast um söluna og herja á sömu hópa fjárfesta án þess að lúta stjórn eins umsjónaraðila sem ber verkstjórnarábyrgð á framkvæmdinni gagnvart seljanda. Þá skapast sú hætta að skipuleg markaðssetning útboðsins fari forgörðum og fylgni við reglur verðbréfamarkaðar líði fyrir vikið.
Vegna þessa myndi Arion banki hf. leggja það til við íslenska ríkið að nýta frekar hefðbundnar og rótgrónar aðferðir við skipulagningu og tilhögun söluferlis á eignarhlutum þess í Íslandsbanka hf. fremur en þær sem frumvarpið lýsir.“
Fæli fjármálafyrirtæki frá söluferlinu
Arion banki segist telja að framkvæmdin sem ráðgerð er í frumvarpinu kunni að fæla fjármálafyrirtæki, innlend sem erlend, frá söluferlinu vegna þeirrar orðsporsáhættu sem óskipuleg framkvæmd kann að valda.
Í 4. grein frumvarpsdraganna er skilgreint að söluþóknun söluaðila í útboðinu skuli nema [0,XX%], án þess að tilgreint hvar á bilinu 0-0,99% söluþóknunin mun endanlega liggja að öðru leyti en að hún verði undir 1% af heildarsöluvirði.
Arion bendir á að Netherlands Financial Investment (NLFI), stofnun sem fer með eignarhluti hollenska ríkisins í fjármálafyrirtækjum, hafi greint þóknanir sem greiddar voru fjárfestingarbönkum í tengslum við einkavæðingu evrópskra fyrirtækja með almennu útboði, hvers stærð var yfir 100 milljón evrum, frá árinu 2006. Samkvæmt niðurstöðum NLFI nam þóknun fyrir fyrstu sölu að meðaltali 1,7% af söluvirði.
„Af því má leiða að þær þóknanir sem birtast í frumvarpsdrögunum séu undir Evrópsku meðaltali,“ segir í umsögninni. Auk þess segir að möguleg þóknun hvers söluaðila lækki eftir því sem fjöldi þeirra eykst.
„Eftir því sem söluaðilum fjölgar aukast jafnframt líkur á því að framkvæmd útboðsins verði óskipulögð sem eykur líkur á því að þau fjármálafyrirtæki sem taka þátt í útboðinu verði fyrir orðspors- og álitshnekkjum. Slíkt, í samspili við lægri þóknanir, gæti leitt af sér að fjármálafyrirtæki, innlend sem erlend, sem mesta reynslu hafa af framkvæmd útboða sjái sér ekki í hag í því að taka þátt í útboðsferlinu.“
Meðal atriða í frumvarpsdrögunum sem Arion telur ábótavant er skortur á upplýsingum um úthlutunarstefnu, t.d. í tilviki umframeftirspurnar, og áform um að birta upplýsingar um alla kaupendur í útboðinu.
Fagna sölunni sjálfri
Arion banki fagnar hins vegar áformum ríkisins um sölu á eignarhlut sínum í Íslandsbanka. Aukin hlutdeild almennings og annarra fjárfesta í eignarhaldi Íslandsbanka verði ísenskum fjármálamarkaði til framdráttar að mati Arion.
„Telur bankinn það gæfuskref að nú verði loks að fullu losað um eignarhald íslenska ríkisins á hlutafé Íslandsbanka hf., 16 árum eftir það bankahrun sem varð á Íslandi árið 2008. Telur Arion banki hf. að sú staðreynd að stór hluti íslenska bankakerfisins hefur til þessa verið í opinberri eigu hafa staðið viðgangi íslensks fjármálakerfis fyrir þrifum.
Fjármögnunarkjör íslenskra banka eru óhagstæðari en tilefni er til, ekki síst þegar horft er til mikils fjárhagslegs styrks og lágs áhættustigs. Hefur þetta, auk mikillar innlendrar, beinnar og óbeinnar, skattheimtu tengdri rekstri þeirra, orðið til þess að arðsemi íslenskra banka er lægri en vera ætti þegar horft er til norrænna samanburðarbanka og vonar Arion banki hf. að áformaðar breytingar á eignarhaldi Íslandsbanka hf. marki vatnaskil í því tilliti.“