Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er áfram á uppleið og mælist með þriðjungsfylgi en fylgi Samfylkingarinnar dalar samkvæmt nýrri könnun Gallup. Framsóknarflokkurinn nær rétt svo að verjast falli á meðan Flokkur fólksins dettur út. Sósíalistaflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni.

Samfylkingin, Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Vinstri græn og Flokkur fólksins mynduðu nýjan meirihluta í borginni þann 21. febrúar sl. en Einar Þorsteinsson, þáverandi borgarstjóri, sleit meirihlutasamstarfi Framsóknarflokksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í byrjun febrúar.

Samanlagt var fyrri meirihlutinn með 13 borgarfulltrúa en nýi meirihlutinn, sem kenndur hefur verið við kryddpíurnar, er með 12 borgarfulltrúa, sem er lágmark til að mynda meirihluta. Könnunin í janúar var framkvæmd þegar fyrri meirihluti var við völd en miðað við fylgi í janúarkönnuninni voru flokkarnir í hinum nýja meirihluta með 11 borgarfulltrúa.

Könnun Gallup sem framkvæmd var dagana 1. til 30. mars, eftir að nýr meirihluti hafði tekið við, sýnir fram á enn frekara fylgistap og myndu flokkarnir einungis fá 10 borgarfulltrúa samkvæmt mælingunni.

Flokkur fólksins úti en Sósíalistar á uppleið

Fylgi Samfylkingarinnar hefur dalað og mælist nú 20%, sem er svipað fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum 2022, og miðað við það myndi flokkurinn halda sínum fimm borgarfulltrúum. Samfylkingin hafði áður verið á miklu flugi og mældist til að mynda með 27,8% fylgi í janúar 2024.

Píratar fengu 11,6% í kosningunum 2022 og þar með 3 borgarfulltrúa og hafði fylgi þeirra í fyrra haldist nokkuð stöðugt. Í janúar hríðféll fylgi þeirra og í mars mældist flokkurinn með 5,5% og myndi því einungis fá einn borgarfulltrúa.

Kryddpíurnar svokölluðu: Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins, Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, og Dóra Björt Gu
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Flokkur fólksins hafði aftur á móti aukið fylgi sitt verulega í fyrra, mældist til að mynda með 8,6% fylgi í október 2024 samanborið við 4,5% í kosningunum 2022. Flokkurinn mælist nú með 3,6% fylgi og myndi því missa sinn eina borgarfulltrúa.

Fylgi Vinstri grænna dalaði verulega í mælingum í fyrra, var til að mynda 1,9% í október 2024, en mælist nú 4,6% sem er ómarktækur munur frá síðustu könnun og myndi því halda sínum eina borgarfulltrúa.

Eini flokkurinn í núverandi meirihluta sem eykur fylgi sitt milli kannana er Sósíalistaflokkurinn, sem fékk 7,7% í kosningunum 2022 og þar með 2 borgarfulltrúa. Flokkurinn mældist með 10% fylgi í könnuninni í janúar en mælist nú með 13,1% og myndi samkvæmt því fá þrjá borgarfulltrúa.

Könnun Gallup var framkvæmd dagana 1. til 30. mars 2025. Í úrtaki voru 3.598 Reykvíkingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 47,7%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.