Í lok síðasta árs keypti bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Vestar Capital Partners stóran hlut í Nox Health, móðurfélagi Nox Medical. Kaup Vestar voru annars vegar gerð með hlutafjáraukningu og hins vegar með kaupum á eignarhlut af fyrrverandi hluthöfum. Seljandi var að langstærstum hluta framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks, sem lét allt hlutafé af hendi. 

Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Nox Medical, segir innkomu fjárfestingarsjóðsins hafa verið sérlega mikilvæga til að styðja við næstu vaxtarskref Nox Health. „Þetta er sérhæfður bandarískur fjárfestingarsjóður sem hefur stórt tengslanet og mikla þekkingu á bandarískum heilbrigðismarkaði. Innkoma hans mun ekki síður hjálpa til við vöxt hins hluta Nox Health-samstæðunnar, Nox Enterprise,“ segir hann og útskýrir nánar:

„Nox Medical er heilbrigðistæknifyrirtæki sem framleiðir tæki og hugbúnað sem notuð eru af læknum um allan heim. Hinn hlutinn, Nox Enterprise, veitir hins vegar heilbrigðisþjónustu, á sviði fjarlækninga, til stórfyrirtækja í Bandaríkjunum til að bæta svefngæði starfsfólks þeirra. Starfsemin gengur út á að greina svefnvanda, meðhöndla hann og fylgja eftir meðferð þeirra einstaklinga sem þurfa á henni að halda. Það að stuðla að góðri svefnheilsu starfsfólks getur sparað fyrirtækjum verulega fjármuni. Það er ekki síst þetta sem Vestar Capital Partners sér tækifæri í, að svefn sé hluti af lausninni við að ná betur utan um hækkandi heilbrigðiskostnað fyrirtækja. Með því að fjárfesta í svefnheilsu fólks stórauka fyrirtæki líkurnar á að ná niður kostnaði sem fellur til vegna heilbrigðisútgjalda starfsmanna.“

Ingvar ber bandaríska fjárfestingarsjóðnum vel söguna. „Ég fullyrði að við hefðum ekki getað fengið betri fjárfesti að borðinu. Sjóðurinn gerir svo margt annað en að koma með fé inn í reksturinn því hann kemur einnig með mikilvæga þekkingu, reynslu og tengingar inn í bandaríska heilbrigðisgeirann að borðinu. Þetta er nákvæmlega það sem Nox Health þurfti á að halda til að taka næsta vaxtarskref.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.