Festi tilkynnti í kvöld um skipulagsbreytingar innan samstæðunnar sem fela m.a. í sér að Ýmir Örn Finnbogason tekur við stöðu framkvæmdastjóra N1 af Hinriki Erni Bjarnasyni sem hefur látið af störfum. Alls kveðja sjö starfsmenn samstæðuna og tveir eru ráðnir til starfa.

„Breytingarnar eru hluti af stefnumörkun félagsins um að létta á móðurfélaginu og efla enn frekar sjálfstæði hvers félags innan Festi. Skerpa fókus til aukins vaxtar og tryggja að fjárfestingum félagsins sé stýrt til réttra tækifæra og aukinnar verðmætasköpunar,“ segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi.

Ýmir Örn Finnbogason, sem tekur við sem framkvæmdastjóri N1 þann 1. júní, kemur frá Deloitte þar sem hann var yfirmaður viðskiptagreiningar frá 2021 og áður sérstakur fjármálaráðgjafi sjávarútvegsfyrirtækja í þjónustu Deloitte á árunum 2010-2012. Hann starfaði áður sem fjármálastjóri Plain Vanilla Games og Teatime Games. Þar áður starfaði Ýmir Örn sem forstjóri Rammagerðarinnar árin 2004-2006.

Forveri hans, Hinrik Örn Bjarnason, hefur starfað innan framkvæmdastjórnar N1 frá 2013 og þar af sem framkvæmdastjóri félagsins frá ársbyrjun 2019.

„N1 stendur á tímamótum með breyttri neysluhegðun og umbreytingu í orkuskiptum. Við þökkum Hinriki fyrir hans mikilvæga starf í vegferð N1 undanfarin ár um leið og við bjóðum Ými velkominn sem fær það hlutverk að taka enn stærri skref í að mæta þeim umbreytingum sem eru að eiga sér stað á markaðnum. Við hlökkum til þess að fá jafn framsækinn og öflugan mann og Ými í brúna,“ segir Ásta.

„Ég er afar spenntur fyrir því að ganga til liðs við N1, fyrirtæki sem stendur frammi fyrir miklum breytingum. Ég er þess fullviss að í þeim liggja fjölmörg tækifæri sem og í auknu samstarfi við önnur félög innan Festi. Ég er þakklátur fyrir traustið og hlakka til að taka þátt í að móta framtíð N1, fyrirtæki með einstaka sögu og gríðarlega sterkan og fjölbreyttan hóp starfsfólks og viðskiptavina“, segir Ýmir Örn Finnbogason.

Kolbeinn kveður eftir hartnær 35 ár

Þá lætur Kolbeinn Finnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Festi, nú af störfum. Kolbeinn hefur starfað hjá félaginu í hartnær 35 ár en hann hóf fyrst störf á fjármálasviði Olíufélagsins árið 1987 og hefur setið óslitið í framkvæmdastjórn frá árinu 2002.

Magnús Kr. Ingason framkvæmdastjóri fjármálasviðs Festi tekur nú við sameinuðu sviði fjármála og rekstrar.

Kolbeinn Finnsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Festi.

Dagný frá stærsta orkufyrirtæki Danmerkur til Festi

Dagný Engilbertsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður stefnumótunar á skrifstofu forstjóra og tekur til starfa 1. september. Í tilkynningunni segir að Dagný muni styðja við stefnumótun móðurfélagsins og þau verkefni sem eru á borði forstjóra.

Dagný kemur frá stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, Örsted, þar sem hún hefur starfað sem verkefnastjóri stefnumótunar. Hún var áður ráðgjafi hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn á árunum 2019-2021.

Dagný Engilbertsdóttir
Dagný Engilbertsdóttir