Kvika eignastýring hefur sett á fót framtakssjóðinn Harpa Capital Partners II (HCPII) sem mun einungis fjárfesta í Bretlandi.

Fjármögnun HCPII lauk á dögunum en tekið var við áskriftum fyrir rúmlega 30 milljónir breskra punda, eða ríflega 5 milljörðum króna, og er það yfir efri mörkum þess sem stefnt var að, að því er segir í tilkynningu Kviku. Alls eru rúmlega 50 fjárfestar í sjóðnum, en þar á meðal er Kvika banki.

Kvika eignastýring segir sjóðinn veita íslenskum fagfjárfestum tækifæri á að fjárfesta í spennandi fyrirtækjum í Bretlandi við hlið Kviku, auk reyndra breskra fjárfesta og rekstraraðila. Með samstarfi Kviku eignastýringar og Kviku Securities í Bretlandi sé sjóðnum tryggt öflugt tengslanet og fagþekking á breska markaðinum.

„Stofnun Hörpu byggir á árangri Kviku í framtaksfjárfestingum í Bretlandi en á síðastliðnum árum hefur Kvika, ásamt samstarfsaðilum og meðfjárfestum, tekið þátt í verkefnum þar sem lögð hefur verið áhersla á fjárfestingar í smærri fyrirtækjum með mikla vaxtarmöguleika og tækifæri á framúrskarandi ávöxtun,“ segir í tilkynningunni.

„Með stofnun Hörpu sjóðsins nýtum við reynslu Kviku af breska markaðnum og höldum áfram að bjóða upp á áhugaverða fjárfestingarkosti fyrir okkar viðskiptavini. Við teljum að hér séu spennandi tækifæri til að styðja við og auka verðmætasköpun í ört vaxandi fyrirtækjum sem búa yfir skýrum vaxtarhorfum. Við erum afar ánægð með hve mikill áhugi hefur verið á sjóðnum, enda hefur Kvika lengi unnið markvisst að því að byggja upp virk tengsl við innlenda og erlenda fjárfesta,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdarstjóri Kviku eignastýringar.

Ágúst og Guðjón í stjórn sjóðsins

Kvika eignastýring, sem stýrir sjóðnum, hefur rekið fjóra framtakssjóði, Auði I (sem búið er að slíta), Eddu, Freyju og Iðunni. Sjóðsstjóri sjóðsins er Pétur Richter.

Stjórn sjóðsins er skipuð Richard Beenstock forstjóra Kviku Securities (sem er formaður stjórnar), Ármanni Þorvaldssyni forstjóra Kviku, Ágústi Guðmundssyni fjárfesti og öðrum stofnanda Bakkavarar og Guðjóni Reynissyni, fyrrverandi forstjóra Hamleys í London, stjórnarmeðlimi í Kviku banka og stjórnarformanni Festi.