Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Fancy Pants Global, FPG ehf. hefur gefið út tölvuleikinn Zorblobs fyrir iPhone og iPad. Leikurinn er óður til misgóðra vísindaaskáldsagna og skrímslabíómynda og er umfjöllunarefnið í stíl við það, innrás greindarskertra geimvera sem spilarar verða fimlega að koma fyrir kattarnef.
Fancy Pants Global hannaði Zorblobs með því sjónarmiði að hann sé aðgengilegur öllum, ekki bara vönum leikjaspilurum. Í tilkynningu er haft eftir Jónasi Óskari Magnússyni, framkvæmdastjóra Fancy Pants Global að markmiðið hefði verið að hanna leik sem væri gaman að grípa í hvenær sem fólk þyrfti að drepa tímann í 5-10 mínútur.
Fancy Pants Global er fjögurra ára gamalt fyrirtæki sem hefur frá stofnun sérhæft sig í framleiðslu á leikjum og hugbúnaði fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Fyrsti tölvuleikur félagsins, Maximus Musicus, sem var unnin í samstarfi við Maximus Musicus ehf., var tilnefndur til tveggja verðlauna á norrænu leikjaráðstefnunni Nordic Game árið 2011.