Jónas Þór Guðmundsson hefur látið af störfum sem stjórnarformaður Landsvirkjunar. Hann var skipaður í stjórn á aðalfundi félagsins árið 2014 og var kjörinn formaður stjórnar í kjölfarið. Jónas Þór hefur gegnt stjórnarformennsku hjá Landsvirkjun næstlengst allra í sögu fyrirtækisins.
„Mikil umskipti hafa orðið í rekstri fyrirtækisins á þessum tíma,“ segir um tíma Jónasar Þórs sem stjórnarformaður í tilkynningu Landsvirkjunar.
„Fjárhagsstaðan hefur aldrei verið betri, skuldir aldrei lægri og eiginfjárhlutfall er hærra en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma hafa þrjár nýjar virkjanir verið gangsettar. Í dag er Landsvirkjun með næsthæstu lánshæfiseinkunn orkufyrirtækja Norðurlandanna (A-) hjá S&P. Jónasi Þór eru þökkuð góð störf í þágu Landsvirkjunar.“
Jón Björn nýr stjórnarformaður Landsvirkjunar
Á aðalfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í dag skipaði fjármálaráðherra í stjórn fyrirtækisins, í samræmi við lög sem um það gilda. Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru:
- Jón Björn Hákonarson
- Jens Garðar Helgason
- Álfheiður Ingadóttir
- Soffía Björk Guðmundsdóttir
- Gunnar Tryggvason
Jón Björn Hákonarson, sem áður var varaformaður stjórnar, hefur tekið við stjórnarformennsku Landsvirkjunar af Jónasi Þór. Jón Björn var fyrst skipaður í stjórn fyrirtækisins árið 2014 og hefur hann gegnt stöðu varaformanns stjórnar í fimm ár á þessu tímabili.
Jón Björn er oddviti Framsóknarmanna í Fjarðabyggð og forseti bæjarstjórnar í sveitarfélaginu. Hann lét af störfum sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í febrúar 2023.
Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru Guðveig Eyglóardóttir, Halldór Karl Högnason, Ragnar Óskarsson, Sigurjón Þórðarson og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.