Norðlenska fyrirtækið Icelandic Eider sérhæfir sig í fullvinnslu æðardúns og þróun á útivistarvörum. Er um að ræða sjálfbærar vörur þar sem dúnninn fellur til af villtum fuglum, en til hreinsunar er notast við jarðvarma af svæðinu. Fyrirtækið hefur verið starfandi í á þriðja ár en byggir á áratuga langri hefð fyrir tínslu og nýtingu á æðardúni. „Fyrirtækið byggir á gömlum grunni þar sem tengdamóðir mín rak lengi fyrirtæki sem einnig seldi sængur og aðrar vörur sem innihéldu æðardún. Þó að fyrirtækið okkar sé því tiltölulega nýtt byggir það á 75 ára gamalli hefð fyrir nýtingu æðardúns," segir Árni Rúnar Örvarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Icelandic Eider.
Það má með sanni segja að Icelandic Eider sé fjölskyldufyrirtæki í sinni tærustu mynd. „Konan mín, Erla Lind Friðriksdóttir, aðstoðar mig við að tína dúninn og tengdamóðir mín, G. Björk Pétursdóttir, sér um að sauma sængurnar. Ég spreytti mig aðeins á saumaskapnum til að byrja með en hún tók fljótt yfir er umsvifin fóru að aukast. Tengdafaðir minn, Friðrik Gylfi Traustason, aðstoðar mig svo við að hreinsa dúninn," segir Árni en æðardúnninn er tíndur á svæði sem er í nágrenni við Siglufjörð. „Þar verpa um 3.500 fuglar og svo eru 1.000-1.200 fuglar með varp á öðru svæði á Siglufirði sem við tínum einnig á. Auk þess kaupum við inn dún frá öðrum sem við hreinsum sjálf og notum í vörurnar sem við framleiðum."
Árni segir að hingað til hafi æðardúnsængurnar verið flaggskip Icelandic Eider. „Í byrjun voru það aðallega Íslendingar sem keyptu af okkur æðardúnsængur en erlendir aðilar hafa sýnt sængunum áhuga og höfum við m.a. selt sængur til Noregs og Danmerkur í gegnum nýopnaða netverslun. Saga okkar höfðar til margra þar sem við sjáum um allt ferlið. Við verndum fuglana með því að undirbúa varpið, tínum dúninn og hreinsum hann, og framleiðum svo úr dúninum vörur sem við seljum sjálf. Ég veit ekki til þess að nokkurt annað fyrirtæki sinni öllu ferlinu sjálft."
Svefnpokar úr 100% endurunnu efni
Fyrirtækið vinnur nú að því að breikka vöruframboðið. „Við höfum hafið samstarf við þrjú erlend útivistarmerki um þróun á útivistarvörum sem innihalda æðardún, en það hefur mjög lítið verið gert af því hingað til," segir Árni.
Þar að auki vinni fyrirtækið að þróun á eigin svefnpokavörulínu. Árni segir þó vöruþróunina enn sem komið er ekki langt á veg komna. „Við stefnum á að vera komin með þrjár tegundir af æðardúnssvefnpokum út á markaðinn innan næstu fimm ára. Einn svefnpokinn verður af svokallaðri Alpine tegund en slíkir pokar eru mjög hlýir og því notaðir þegar klifið er upp á fjöll á borð við K2 og Everest. Miðjupokinn verður meira í líkingu við hefðbundinn svefnpoka og vel sniðinn að þeim sem eru mikið í útivist. Þriðji pokinn verður svo léttur en vel einangrandi svefnpoki sem hentar t.d. vel í hjólaferðina." Íslandsvinurinn og ævintýraljósmyndarinn Chris Burkard tengist að sögn Árna verkefninu og mun koma til með að veita aðstoð við vöruþróunina.
Icelandic Eider var eitt af átta nýsköpunarteymum af Norðurlandi sem valið var til þátttöku í viðskiptahraðlinum Vaxtarrými, fyrsta viðskiptahraðli Norðurlands, sem hóf göngu sína í byrjun síðasta mánaðar. Árni segir að þátttaka Icelandic Eider í hraðlinum snúist fyrst og fremst um að straumlínulaga ferlið í kringum vöruþróunina. „Við stefnum á að svefnpokarnir verði saumaðir hér á Íslandi og búnir til úr 100% endurunnu næloni. Plastrusl sem finnst í sjónum og úti í náttúrunni verður brætt niður í fljótandi form og svo búið til úr því nælon."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .