FÓLK Reykjavík tryggði sér nú á dögunum rúmlega 100 milljón króna fjármögnun frá Eyri Vexti og Vækstfonden. Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri FÓLK Reykjavík, segir fyrirtækið jafn mikið nýsköpunarfyrirtæki og það er hönnunarfyrirtæki.
„Tölur frá Danmörku sýna að vörur heimilisins standa fyrir 39% af kolefnisfótspori heimila. Húsgögn og hlutir sem fólk notar í dag voru mörg hver hönnuð á þeim tíma þegar framleiðendur og hönnuðir þurftu ekki að hafa áhyggjur af því kolefnis- og umhverfisfótspori sem framleiðsla hlutanna hafði. Það er hins vegar efst í huga okkar í dag, að finna leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum okkar og ein leið er að skoða neyslu á hlutum og hvernig má draga úr umhverfisáhrifum þeirra. Tækifærin til að gera betur eru gríðarleg. Við getum hannað okkur inn í nýja tíma, þekkingin er til staðar.“
Ragna Sara segir FÓLK fara eftir tveimur leiðum til að reyna að stýra umhverfisáhrifum á vörunum sem það framleiðir og selur. Í fyrsta lagi mælir félagið kolefnisfótspor sinnar framleiðslu með hjálp dansks hugbúnaðs. „Þar getum við séð hvar fótsporið myndast og hvar við getum dregið úr því.“
Til dæmis höfum við nýtt úrgangstextíl til að búa til húsgögn, höfum notað loftpúða úr bílum til að gera púða. Verð á hráefnum hefur hækkað mikið eins og flestir vita og endurnýting hráefna verður meira viðtekin.
Í öðru lagi nýtir félagið náttúruleg og endurunnin hráefni í hönnun fjölmargra hönnunarvara og stuðlar þannig að hringrás hráefnanna. „Við nýtum úrgangsefni eins mikið og við getum. Þar er átt við hráefni sem eru úrgangur eða rusl og myndi annars vera fargað á óumhverfisvænan hátt. Til dæmis höfum við nýtt úrgangstextíl til að búa til húsgögn, höfum notað loftpúða úr bílum til að gera púða. Verð á hráefnum hefur hækkað mikið eins og flestir vita og endurnýting hráefna verður meira viðtekin.“
Íslensk hönnun í útrás
Vörur FÓLKs eru seldar í verslunum hérlendis og erlendis á borð við Epal, Rammagerðina, Hrím, Finnish Design Shop, Ikarus og fleiri. Félagið er bæði með söluaðila hérlendis sem og í Finnlandi og Þýskalandi. Markmið félagsins er að fjölga söluaðilum í þessum löndum og að fá söluaðila á nýjum mörkuðum, m.a. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi og Belgíu.
Núverandi samstarfshönnuðir FÓLKs eru þau Studio Flétta, Theódóra Alfreðsdóttir, Ragna Ragnarsdóttir, Tinna Gunnarsdóttir, Ólína Rögnudóttir, Jón Helgi Hólmgeirsson og Gunnar Magnússon.
Nánar er fjallað um FÓLK í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið.