Á fyrstu sex mánuðum ársins voru alls 7.886 nýir fólksbílar skráðir hér á landi, þar af 2.032 fólksbílar í júnímánuði. Þetta jafngildir 24,1% aukningu miðað við sama tímabil í fyrra, að því er segir í tilkynningu Bílgreinasambandsins (BGS).
Fjöldi nýskráðra fólksbíla á fyrri árshelmingi var þó 23% minni en á fyrstu sex mánuðum ársins 2023.
Sala rafmagnsbíla tekur við sér
Það sem af er ári hafa 2.283 nýir rafmagnsfólksbílar verið skráðir sem jafngildir tæplega 140% aukningu samanborið við sama tímabil í fyrra.
„Fjölgun rafmagnsbíla hefur gengt lykilhlutverki í þeirri aukningu sem hefur orðið í nýskráningum fólksbíla á milli ára en á sama tíma hefur nýskráningum hefðbundinna bensín- og dísilbíla fækkað,“ segir í tilkynningu BGS.
Þrátt fyrir nýskráning rafmagnsbíla hafi tekið við sér hefur hlutdeild þeirra enn ekki náð sömu hæðum og árið 2023 þegar hún var rúmlega 38% á fyrri árshluta samkvæmt samantektinni.
Rafmagnsbílar eru þó stærsti einstaki orkugjafinn með 29% hlutdeild af öllum nýskráðum fólksbílum það sem af er ári. Á eftir rafmagnsbílum komu tvinnbílar (e. hybrid) með 25% hlutdeild og tengiltvinnbílar með 22%. Hlutdeild bensín- og dísilbíla heldur áfram að dragast saman og nam samanlagt 24% á fyrri hluta árs.
Mesta aukningin hjá einstaklingum
Ef flokkað er eftir kaupendahópum var mesta aukningin milli ára hjá einstaklingum. Á fyrri hluta árs voru samtals skráðir 2.484 nýir fólksbílar á einstaklinga sem jafngildir 52,5% aukningu milli ára. Meira en helmingur umræddra fólksbíla voru rafmagnsbílar eða um 60%.
Flestir nýskráðir fólksbílar á fyrri hluta árs voru bílaleigubílar. Samanlagt voru skráðir 4.628 nýir bílaleigubílar sem jafngildir tæplega 60% af öllum nýskráðum fólksbílum. Nýskráðum bílaleigubílum á fyrri árshelmingi fjölgaði um 12,5% frá sama tímabili í fyrra.
Alls voru skráðir 773 nýir fólksbílar á almenn fyrirtæki (að undanskildum ökutækjaleigum) sem er 26,3% aukning milli ára.
Kia vinsælasti bíllinn í ár
Þegar horft er til einstakra bíltegunda hefur Kia verið mest skráða tegundin það sem af er ári með alls 1.490 nýskráða fólksbíla. Það jafngildir 19% af öllum nýskráðum nýjum fólksbílum á tímabilinu.
Þar á eftir kom Toyota með 971 nýskráningar og 12% hlutdeild. Tesla og Dacia voru síðan hvort um sig með um 8% hlutdeild af nýskráningum.