Samkvæmt tölum Bílagreiningarsambandsins voru skráðir 1.021 nýir fólksbílar í mars en það er nánast tvöfalt fleiri bílar en skráðir voru í mars á síðasta ári. Sé litið til nýskráninga fólksbíla það sem af er ári námu þær samtals 2.272 sem er 63,9% aukning milli ára.

Í tilkynningu segir að Kia hafi verið mest skráða tegundin á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða 350 talsins og samsvarar sú bílategund 15% allra nýskráðra fólksbíla.

Tesla var þá með næstflestar nýskráningar, eða 323 bíla í heildina og 14% hlutdeild. Þar á eftir kom Toyota með 253 nýskráningar fólksbíla og 11% hlutdeild.

„Hlutdeild rafmagnsbíla er að aukast eftir niðursveiflu síðasta árs. Rafmagn var vinsælasti orkugjafinn og hafa verið nýskráðir 956 nýir rafmagnsbílar það sem af er ári. Það jafngildir 42,1% hlutdeild af nýskráðum fólksbílum,“ segir í tilkynningu.

Næst á eftir komu tengiltvinnbílar en samtals voru nýskráðir 480 slíkir fólksbílar það sem af er ári sem nemur 21,1% af nýskráðum fólksbílum.