Blackstone, Elliot Management, Vista Equity Partners og önnur stór eignarhaldsfélög í Bandaríkjunum hafa verið að nýta sér aukna eftirspurn eftir skuldum til endurfjármögnunar og arðgreiðslna.
Samkvæmt Financial Times hefur eftirspurn eftir skuldum fyrirtækja aukist til muna eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Skuldabréfaútgáfa og lántaka er í miklum vexti hjá eignarhaldsfyrirtækjum sem hafa verið að keppast við að endurfjármagna eftir töluverðar skuldsettar yfirtökur síðastliðin ár.
Samkvæmt heimildum FT tók Copeland, loftkælingar- og hitunarfyrirtæki í eigu Blackstone, 675 milljóna dala lán í vikunni til að greiða arð til eignarhaldsfélagsins.
Eftirspurn eftir skuldabréfunum gerði félaginu kleift að fjármagna sig á föstum vöxtum sem voru 2,5% betri en SOFR (Secured Overnight Financing Rate) breytilega vaxtaviðmiðinu. Ávöxtunarkrafan var um 7,3%.
Þegar Blackstone keypti Copeland árið 2022 var krafan á skuldabréfunum sem fjármögnuðu kaupin um 11%.
Elliot og Vista sóttu einnig um 6,5 milljarða dala í síðustu viku til að endurfjármagna kaupin á Cloud Software Group (áður Citrix) fyrir 16,5 milljarða árið 2022.
Felögunum tókst að bæta lánakjör og færa um 2 milljarða dala gjalddaga aftur til ársins 2031.