Black­stone, Elliot Mana­gement, Vista Equity Partners og önnur stór eignar­halds­félög í Bandaríkjunum hafa verið að nýta sér aukna eftir­spurn eftir skuldum til endur­fjár­mögnunar og arð­greiðslna.

Sam­kvæmt Financial Times hefur eftir­spurn eftir skuldum fyrir­tækja aukist til muna eftir að Donald Trump var kjörinn for­seti Bandaríkjanna.

Skulda­bréfaút­gáfa og lán­taka er í miklum vexti hjá eignar­halds­fyrir­tækjum sem hafa verið að keppast við að endur­fjár­magna eftir tölu­verðar skuld­settar yfir­tökur síðastliðin ár.

Sam­kvæmt heimildum FT tók Copeland, loft­kælingar- og hitunar­fyrir­tæki í eigu Black­stone, 675 milljóna dala lán í vikunni til að greiða arð til eignar­halds­félagsins.

Eftir­spurn eftir skulda­bréfunum gerði félaginu kleift að fjár­magna sig á föstum vöxtum sem voru 2,5% betri en SOFR (Secured Overnight Financing Rate) breyti­lega vaxta­viðmiðinu. Ávöxtunar­krafan var um 7,3%.

Þegar Black­stone keypti Copeland árið 2022 var krafan á skulda­bréfunum sem fjár­mögnuðu kaupin um 11%.

Elliot og Vista sóttu einnig um 6,5 milljarða dala í síðustu viku til að endur­fjár­magna kaupin á Cloud Software Group (áður Citrix) fyrir 16,5 milljarða árið 2022.

Felögunum tókst að bæta lána­kjör og færa um 2 milljarða dala gjald­daga aftur til ársins 2031.