Nýjustu rannsóknir benda til að Eli Lily sé að sigra kapphlaupið um að koma þyngdarstjórnunarlyfi í töfluform.
Bandaríska lyfjafyrirtækið hefur birt nýjar niðurstöður sem sýna að þyngdarstjórnunarlyfið orforglipron, sem tekið er í töfluformi, náði markmiðum sínum í klínískri rannsókn á sykursýkissjúklingum í yfirþyngd.
Meðalþátttakandi missti 10,5 prósent af líkamsþyngd sinni sem fyrirtækið segir afar jákvæðar fréttir þar sem sykursýki gerir þyngdartap oft erfiðara.
Kenneth Custer, framkvæmdastjóri hjá Eli Lilly, segir í tilkynningu að niðurstöðurnar opni á umsókn um markaðsleyfi hjá matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, FDA, síðar á þessu ári.
Ef allt gengur eftir gæti samþykki fengist á næsta ári og þá væri þetta fyrsta lyfið í töfluformi af nýju kynslóðinni af þyngdarstjórnunarlyfjum sem fengi grænt ljós.
Orforglipron er í beinni samkeppni við Novo Nordisk, sem sótti um markaðsleyfi í maí fyrir eigið þyngdartapalyf í töfluformi.
Í tilraunum Novo Nordisk misstu sykursýkissjúklingar að meðaltali 9,2 prósent líkamsþyngdar, sem er nokkuð minna en nýjustu niðurstöður Eli Lilly sýna.
Fyrri tilraunir Eli Lilly með fólk án sykursýki skiluðu 12,4 prósenta meðalþyngdartapi, sem var neðri mörkum væntinga markaðarins og olli vonbrigðum hjá fjárfestum fyrr í mánuðinum.
Lyf í töfluformi eru mun ódýrari
Ef lyfið fær samþykki verður það fyrsta þyngdarstjórnunarlyfið í töfluformi af nýjustu kynslóðinni. Það gæti haft mikla þýðingu því sprautulyfin sem nú eru á markaði þurfa kælingu og eru dýrari í framleiðslu og dreifingu.
„Það er augljóst að við getum ekki náð til eins margra og þarf með sprautulyfjum eingöngu,“ sagði Custer og benti á að yfir einn milljarður manna gæti haft gagn af slíkum lyfjum.
Þrátt fyrir nýju niðurstöðurnar hafa fjárfestar verið varfærnir. Hlutabréf Eli Lilly hafa lækkað um 10,6 prósent frá áramótum, en hlutabréf Novo Nordisk hafa fallið um nærri 44 prósent á sama tíma.
Eftir vonbrigðaniðurstöður í síðustu tilraun keyptu stjórnendur og stjórnarmenn Eli Lilly samtals bréf fyrir 4,5 milljónir dala, sem er mesta innkaup þeirra frá árinu 2019.
Markaðurinn bíður nú eftir því hvort FDA samþykki orforglipron og opni þannig nýja vídd í meðferð við offitu.