Þeir Ragnar Eiríksson, Ólafur Örn Ólafsson og Bragi Skaftason opna dyrnar á nýjasta veitingastað borgarinnar um helgina. Er það staðurinn Brút , sem er í einu fallegasta húsi bæjarins við Pósthússtræti 2. Húsið var byggt af Eimskipafélagi Íslands, sem tók það í notkun árið 1921 og um 82 ára skeið var það aðalmiðstöð skipafélagsins. Nýi veitingastaðurinn deilir húsinu með Radisson Blu hótelinu.
Ragnar, sem var yfirmatreiðslumaður á Michelin -staðnum Dill frá 2015 til 2018, segir að á Brút verði framreiddur morgunverður fyrir hótelgesti en að öðru leyti sé hótelið ekki tengt veitingastaðnum heldur alfarið í eigu þeirra þremenninga.
„Þú finnur ekki fyrir því að þú sért á hóteli þegar þú gengur inn á staðinn,“ segir hann og bætir því við að nafn veitingastaðarins, Brút , sé óbein tilvísun í skipafélagið og raunar ýmislegt annað. „Hér inni var mikið talað um brúttólestir í gamla daga og þess vegna þótti okkur tilvalið að nefna staðinn Brút , sem er stutt, laggott og skemmtilegt nafn. Nafnið getur líka vísað í þurrt vín eða jafnvel villimennsku. Við verðum að sjálfsögðu líka með vínbar og hann höfum við ákveðið að kalla Óskabar þjóðarinnar, sem er augljós tilvísun í fyrirtækið sem starfaði hér marga áratugi.”
Brút og Óskabar þjóðarinnar eru á jarðhæð hússins við Pósthússtræti en í því rými var veitingastaðurinn Salt um árabil sem og bar honum tengdur.
„Við rifum allar innréttingar út og fengum hið margverðlaunaða breska fyrirtæki T.P . Bennett til að hanna útlit staðarins. Þetta voru tvö rými áður en nú er þetta orðin ein falleg heild og eldhúsið er líka nýtt – það er allt nýtt. Staðurinn tekur 75 manns í sæti og síðan erum við með prívat-herbergi, sem tekur 12 til 14 manns, en þar verður hægt að halda fundi, borða góðan mat eða halda lítið partí.“
Sjávarréttir í hávegum hafðir
Á Brút verður lögð áhersla á sjávarrétti. „Hér verða fiskur og sjávarréttir í hávegum hafðir. Við erum reyndar með eina steik á matseðlinum en áherslan verður á sjávarfang úr Norður-Atlantshafi, sem matreitt verður á klassískan franskan og norðurevrópskan máta með smá tvisti. Við verðum líka með stóran vínkjallara enda með um 200 flöskur á vínseðlinum. Manuel Schembri , sem var vínþjónn ársins í fyrra, og Ólafur Örn hafa valið vínin af mikilli kostgæfni en við gleymum heldur ekki þeim sem drekka ekki áfengi því hjá okkur verður gott úrval af óáfengum drykkjum.“
Ragnar segir að staðurinn hafi ansi lengi verið í bígerð. „Við byrjuðum að tala um þetta árið 2019 og ætluðum upphaflega að opna fyrir ári en þá kom svolítið upp á,“ segir hann og vísar í heimsfaraldurinn sem fór ansi illa með mörg fyrirtæki í veitingageiranum.
„Við ákváðum því að gefa okkur góðan tíma í þetta og sjáum ekkert eftir því enda allt aðrar forsendur til að opna veitingastað í dag en fyrir ári síðan. Eru ekki allir hættir að spá í covid í dag, eigum við ekki bara að lýsa því yfir.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .