Nýtt smáforrit hefur verið gefið út af Reiknistofu fiskimarkaða hf., sem rekur í dag uppboðsvefinn RSF.is. Hið svokallaða RSF App hefur það markmið að auka þjónustu RSF með því að einfalda aflaskráningu á markaði.

Smáforritið er þróað af Reiknistofu fiskmarkaða og samstarfsaðilum þeirra.

Með appinu geta sjómenn skráð afla veiðiferða sinna og sent upplýsingarnar til Fiskistofu í samræmi við lög. Á sama tíma geti þeir sent tilkynningu til sinna markaða og meldað aflann inn á uppboð.

„Undanfarin þrjú ár hefur RSF lagt mikla áherslu á hugbúnaðarþróun og aukningu þjónustuframboðs á hugbúnaðarlausnum fyrir sjávarútveginn. Appið er því mikilvægur hluti af þeirri þróun og mun einfalda skráningu til muna,“ segir Magnús Stefánsson, verkefnastjóri hjá RSF.

RSF Appið er fyrst og fremst hugsað fyrir seljendur en í tilkynningu segir að næstu fyrirhuguðu skref í þróun forritsins séu viðbætur tengdar skráningum á upplýsingum seljenda, sem í dag eru aðeins aðgengilegar á vef RSF.