Fasteignafélagið Heimar undirbýr nú talsverðar breytingar í austurhluta Smáralindar, sem er þekktur sem Vetrargarðurinn.
Stefnt er að opnun nýs veitinga- og afþreyingasvæðis haustið 2025 og standa nú samningaviðræður yfir við fjölda veigingaaðila.
Með breytingunum mun veitingastöðum í Smáralind fjölga. Stefnt er að því að bjóða upp á fjölbreytt úrval af ólíkum veitingastöðum sem höfða til ólíkra hópa.
Markmið Heima með breytingunum er m.a. að ná til nýrra viðskiptavinahópa, þar á meðal íbúa í nærliggjandi hverfum og þeirra sem starfa á Smárasvæðinu.
Samhliða nýju veitingasvæði fjölgar bíósölum í Smárabíói og afþreyingarsvæði Smáralindar verður endurbætt.
„Við erum mjög spennt að hefja framkvæmdir við nýtt veitinga- og afþreyingarsvæði til að bæta upplifun viðskiptavina Smáralindar. Fyrirhugað veitingasvæði mun höfða til ólíkra hópa, þar sem boðið verður upp á fjölbreytt úrval af nútímalegri matargerð. Við hönnun veitingasvæðisins var lögð mikil áhersla á að skapa hlýlegt og glæsilegt svæði sem höfðar til fjölbreyttra hópa í ólíkum erindagjörðum,“ segir Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Heimum.
„Við finnum fyrir miklum meðbyr með Smáralind eftir umbreytingu á stærstum hluta verslunarrýma undanfarin ár. Við trúum því að nýtt og endurhannað veitingasvæði muni styrkja stöðu Smáralindar enn frekar auk þess sem staðsetning Smáralindar í miðju höfuðborgarsvæðisins er mikill styrkleiki.“
Hönnun veitingasvæðisins er í höndum Basalts arkitekta, sem m.a. hönnuðu veitingasvæðið Hafnartorg Gallery, sem yfir ein milljón gesta hefur heimsótt frá því að það opnaði fyrir tveimur árum síðan.