Sjókvíaeldi hefur vaxið hratt hér á landi undanfarin ár. Á tímabilinu 2014-2021 meira en tífaldaðist sjókvíaeldi við Ísland þar sem ársframleiðsla fór úr tæpum fjögur þúsund tonnum i tæp 45 þúsund tonn.
Til að starfrækja fiskeldisstöðvar í sjó þarf bæði starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Í dag eru í gildi sextán rekstrarleyfi til sjókvíaeldis.
Að því er segir í svari deildarstjóra fiskeldisdeildar Matvælastofnunar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins hefur stofnunin til meðferðar sjö umsóknir um ný rekstrarleyfi til sjókvíaeldis, þrjár á Austfjörðum og fjórar á Vestfjörðum, en umsóknirnar eru komnar mislangt á leið.
Tillaga að rekstrarleyfi Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi var auglýst í byrjun júní og er verið að vinna að því að svara athugasemdum. Tvær umsóknir, ein í Seyðisfirði og ein í Ísafjarðardjúpi, eiga þá eftir að fara í gegnum áhættumat um siglingaöryggi.
Nýverið greindi Ríkisútvarpið frá því að stofnunin myndi afgreiða þessar þrjár nýju umsóknir um rekstrarleyfi á næstu misserum en aðrar leyfisveitingar yrðu settar á ís þar til fyrirhugaðar breytingar á lögum lægju fyrir. Deildarstjóri fiskeldisdeildar MAST segir það þó ekki alls kostar rétt.
„Matvælastofnun er að skoða hvort fjórar af þessum sjö umsóknum um ný rekstrarleyfi til sjókvíaeldis falli utan skurðarpunkts laganna 19. júlí 2019 eða ekki. Falli þær utan skurðpunkts verður þeim umsóknum hafnað. Ef einhver umsókn eru hins vegar innan skurðpunkts þá verður sú umsókn afgreidd,“ segir í svarinu.
Auk umsókna um ný rekstrarleyfi er stofnunin með átta umsóknir um breytingar á rekstrarleyfum til sjókvíaeldis til meðferðar. Áður en hægt er að afgreiða þær umsóknir þarf áhættumat um siglingaöryggi að liggja fyrir. Eins og staðan er í dag liggur áhættumat fyrir þrjú eldissvæði Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi fyrir en ekki er ljóst hvenær lokið verður við áhættumat annarra eldissvæða, að því er segir í svari MAST.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.