Englandsbanki tilkynnti í dag að stýrivextir bankans yrðu óbreyttir á 4,5%, þar sem vaxandi óvissa í heimsmarkaði vegna tollastríða Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur aukist.

Peningastefnunefnd bankans greiddi atkvæði um að halda vöxtum stöðugum með átta atkvæðum gegn einu. Þótt hagvöxtur í Bretlandi hafi dregist saman er enn mikill verðbólguþrýstingur að mati nefndarmanna. Í janúar var verðbólgan 3%, sem er yfir 2% markmiði bankans, en launahækkanir voru 5,9% samkvæmt gögnum sem birt voru í dag.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að „óvissa í alþjóðaviðskiptum hefur aukist verulega“ en þar er vísað í tollastríð Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hagfræðingar telja að muni vera verðbólguvaldandi.

Eini nefndarmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn stöðugum vöxtum og vildi 25 punkta lækkun var Swati Dhingra.

Samkvæmt London Evening Standard er ákvörðunin slæm fyrir fjárfesta sem voru að vonast eftir lækkun, líkt og fyrirtæki og heimili í Bretlandi.

Stýrivextir náðu 5,25% á milli ágúst 2023 og ágúst 2024, en bankinn hefur staðið fyrir stigvaxandi lækkun með fjórðungsprósents lækkunum í ágúst, nóvember og febrúar.

Englandsbanki fylgdi þannig eftir bandaríska seðlabankanum sem ákvað í gær að halda vöxtum stöðugum í 4,3%, þar sem óvissa um stefnu Trump-stjórnarinnar í tollum, skattastefnu og fjármálum hefur gert ástandið óljóst.

„Við teljum þetta vera rétta tímapunktinn til að bíða og safna frekari gögnum,“ sagði Jerome Powell seðlabankastjóri á blaðamannafundinum.

Markaðir tóku ákvörðuninni ágætlega og hækkaði Dow Jones um 0,9% í kjölfarið á meðan Nasdaq Composite og S&P 500 hækkuðu um 1%.

Efnahagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir 1,7% hagvexti árið 2025, lægri en fyrri spá um 2,1%, þar sem vaxandi tollastríð og vaxandi óvissa hafa dregið úr fjárfestingu og vexti.

Seðlabankinn hefur lækkað vexti um 1% á milli september og desember 2024, en er enn þá að meta hvort frekari ákvarðanir séu nauðsynlegar til að draga úr hægagangi hagkerfisins.