Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í 5,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og tíu félög lækkuðu.

Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 9,8% í hátt í eins milljarðs króna veltu. Gengi hlutabréfa félagsins stóð í 2.120 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og hefur aldrei verið hærra.

Oculis tilkynnti í morgun um að félagið hefði hraðað innritunum þátttakenda í rannsóknum á lyfinu OCS-01.

Auk Oculis þá hækkaði hlutabréfaverð Heima, Sjóvá, Símans, Eikar og Skagans um meira en 2% í dag. Hlutabréf Skagans, móðurfélags VÍS og Fossa, hækkuðu um 4,2% í 90 milljóna króna veltu og stendur gengi félagsins nú í 17,5 krónum.

Icelandair var eina félagið sem lækkaði um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Gengi Icelandair féll um 1,3% í 272 milljóna króna veltu og stendur nú í 1,18 krónum á hlut. Flugfélagið mun birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á morgun.