Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis var í dag skráð á hlutabréfamarkað Nasdaq í Bandaríkjunum að loknum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) European Biotech Acquisition Corp („EBAC“). Gengi hlutabréfa Oculis, sem eru skráð undir auðkenninu OCS, stendur í 11,3 dölum á hlut og er um 13% yfir 10 dala útboðsgenginu í frumútboði EBAC.
Samruninn felur í sér að EBAC leggur Oculis til allt að 127,5 milljóna dala innspýtingu reiðufjár, eða sem nemur 18 milljörðum króna (ef gert er ráð fyrir engum innlaunum). Samhliða skráningunni, sem var tilkynnt um í haust, sótti félagið einnig tæplega 95 milljónir dala, eða yfir 13 milljarða króna.
Oculis var stofnað af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði, fyrir tuttugu árum. Tækni Oculis byggir á nanóögnum, gerðum úr sýklódextrín-sameindum, sem nýttar eru til að auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni.
Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis, OCS-01, byggir á einkaleyfavarinni tækni, sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum. OCS-01 er í dag í alþjóðlegum fasa 3 klínískum prófunum til meðhöndlunar á sjónhimnubjúg í sykursýki og gæti orðið fyrsta lyfið í formi augndropa til meðhöndlunar á sjúkdóm í afturhluta augans.
Fyrsta vísisfjármögnun Oculis fór fram árið 2016 og var leidd af Brunni vaxtarsjóði og Silfurbergi. Í árslok 2017 urðu vatnaskil í starfsemi Oculis þegar þrír erlendir vísisjóðir komu að félaginu. Í kjölfar þess var sett upp móðurfélag og höfuðstöðvar í Sviss.