Farsælt frumútboð Oddity Tech, móðurfyrirtæki snyrtivörufyrirtækisins Il Makiage, gefur fjárfestum vestanhafs vonir um að fleiri séu á leiðinni.
Oddity setti 12,1 milljón hluti í sölu og nam söluandvirði þeirra 424 milljónir Bandaríkjadala. Útboðsgengið var um 35 Bandaríkjadalir og var mikil eftirspurn í útboðinu. Gengi Oddity stendur nú í um 50 Bandaríkjadölum í dag sem gerir markaðsvirði þess um 3 milljarða dala.
Frumútboð í Bandaríkjunum hafa verið í mikilli lægð síðastliðna 18 mánuði en nú virðist sem að markaðurinn sé tilbúinn í að taka við fleiri fyrirtækjum.
Hlutabréf í Bandaríkjunum hafa verið á uppleið síðastliðnar 52 vikur, verðbólgan hefur lækkað niður í 3% og fjárfestar eru byrjaðir að fjárfesta í áhættusamari bréfum.
Fjárfestar bíða eftir fyrirtækjum
Samkvæmt Daniel Burton- Morgan, yfirmanni hlutabréfa- og fjármálamarkaða hjá Bank of America veltur framhaldið algjörlega á því hvort fyrirtæki vilji fara á markað þar sem fjárfestar og fé sé meira en tilbúið að taka við þeim.
Samkvæmt The Wall Street Journal hafa sprotafyrirtæki í Bandaríkjunum aðlagast markaðsaðstæðum og mörg hver dregið úr kostnaði og hugað að því að verða arðbær mun fyrr en áður.
Í september mun breska hálfleiðaraframleiðandinn Arm fara á markað en markaðsvirði fyrirtækisins er talið vera um 50 milljarða Bandaríkjadala.