Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, mun ekki að sækjast eftir sæti á lista flokksins í komandi þingkosningum. Hún greinir frá þessu á Facebook.
„Þá ákvörðun hef ég melt með mér og fjölskyldu minni í nokkurn tíma og er nú ákveðin í að þetta verði mitt síðasta kjörtímabil á þingi.“
Hún þakkar þeim traustið sem hvatt hafa hana til að bjóða sig fram að nýju.
Oddný tók sæti á þingi fyrir Suðurkjördæmi árið 2009. Hún var fjármálaráðherra árin 2011-2012 og iðnaðarráðherra um tíma á árinu 2012 í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
1. júní 2016 var hún kjörin formaður Samfylkingarinnar er hún bar sigur úr býtum í formannskosningum með 60% atkvæða. Í alþingiskosningum haustið 2016 hlaut flokkurinn einungis 5,7% fylgi og sagði hún í kjölfarið af sér sem formaður flokksins.
Hún gegndi stöðu formanns þingflokks Samfylkingarinnar á árunum 2011-2012, 2012-2013, 2016 og 2017-2021. Þá hefur hún gegnt stöðu 1. varaforseta Alþingis síðan 2021.