Hið nýstofnaða félag Odin Cargo ehf., sem er í jafnri eigu Magnúsar H. Magnússonar og Cargow Thorship, hyggst fylla í skarð Bláfugls á íslenskum markaði með flugfrakt.

„Félagið hefur nú þegar gengið frá langtíma samningum við birgja til að tryggja framboð á plássi í flugfrakt til og frá Íslandi. Odin Cargo hefur því náð að fylla hratt í það skarð sem myndaðist með brotthvarfi Bláfugls af Íslenskum flugfrakts markaði og þannig tryggt fyrrum viðskiptavinum Bláfugls áframhaldandi lausnir í flutningum til og frá Íslandi,“ segir í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í morgun.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Bláfugl, sem hefur starfað undir nafninu Bluebird Nordic, hafi hætt fraktstarfsemi. Í tilkynningu Bláfugls kom fram að öllum flugvélum í flota félagsins verði skilað til viðkomandi leigusala.

Bjóða upp á sömu flugáætlun og Bláfugl

Odin Cargo segist bjóða upp á sömu flugáætlun og Bláfugl gerði áður, þ.e. fraktflug alla virka daga milli Keflavíkur, Billund og Kölnar. Frá Billund og Köln er boðið upp á daglegar tengingar með kælitrukkum til Bremerhaven, Zeebrugge og Boulogne-sur-Mer fyrir ferskan fisk.

„Í gegnum Billund og Köln getur Odin Cargo boðið viðskiptavinum sínum aðgengi að öflugum leiðakerfum flugfélaga eins og SAS, UPS Air Cargo og Ethiopian Airlines í gegnum öfluga samstarfssamninga. Þessar lausnir gera Odin Cargo kleift að bjóða lausnir með ferskvöru frá Íslandi til Asíu, Norður Ameríku og Afríku.“

Odin Cargo er umboðsaðili fyrir Delta Cargo og býður upp á dagleg flug frá Keflavík til New York, Minneapolis og Detroit. „Í gegnum þessa velli er síðan hægt að tengja við öflugt leiðakerfi Delta Cargo.“

Framkvæmdarstjóri Odin Cargo ehf. er Magnús H. Magnússon. Félagið er í jafnri eigu hans og Cargow Thorship sem býður upp á alhliða lausnir í flutningum, á sjó, landi og í flugi. Magnús hefur starfað við flugtengdan rekstur samfleytt frá 1997.

Odin Cargo er með aðsetur að Selhellu 11 í Hafnarfirði