Ódýrustu íbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað um 100% að raunverði frá árinu 2014. Í nýrri mánaðarskýrslu HMS er bent á að á þessu tímabili hafi lægstu fimmtungsmörkin hækkað úr um 30 milljónum króna í 60 milljónir á föstu verðlagi.

Ódýrustu íbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað um 100% að raunverði frá árinu 2014. Í nýrri mánaðarskýrslu HMS er bent á að á þessu tímabili hafi lægstu fimmtungsmörkin hækkað úr um 30 milljónum króna í 60 milljónir á föstu verðlagi.

Til samanburðar þá eru hæstu fimmtungsmörk kaupverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu í dag um 112 milljónir króna og hafa hækkað um 87% yfir sama tímabil. Í dag sé kaupverð ódýrari íbúða kringum 55% af kaupverði dýrari íbúða.

„Þróun í átt að fámennari heimilum hefur aukið eftirspurn eftir minni íbúðum sem að jafnaði eru ódýrari en stærri íbúðir auk þess sem gera má ráð fyrir að hækkandi raunverð hafi ýtt eftirspurninni í átt að minni íbúðum,“ segir í mánaðarskýrslunni.

„Einnig má búast við að minni nýjar íbúðir sem bæst hafa við á síðustu árum séu að jafnaði dýrari en þær sem fyrir voru m.a. þar sem þær eru gjarnan byggðar miðsvæðis á þar sem fasteignaverð er almennt hærra.“

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Kaupsamningar aldrei verið fleiri

Kaupsamningar á fasteignamarkaði hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði en í maí síðastliðnum. Íbúðamarkaðurinn hefur m.a. litast af uppkaupum fasteignafélagsins Þórkötlu í Grindavík, að því er segir í mánaðarskýrslu HMS.

Kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í maí voru 1.760 samanborið við 1.410 í apríl. Miðað við árstíðaleiðréttar tölur fjölgaði kaupsamningum um íbúðarhúsnæði um 10% í maí frá fyrri mánuði.

„Kaupsamningum fjölgaði í öllum landshlutum milli mánaða. Á höfuðborgarsvæðinu voru viðskiptin 821 talsins samanborið við 670 í apríl, sem er svipaður fjöldi og árið 2021 þegar vextir voru sögulega lágir.“

HMS segir að hafa beri þó í huga að viðskipti Þórkötlu í maí voru mun meiri en í apríl, en gengið var frá 423 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði í Grindavík í maí samanborið við 229 í apríl. Séu uppkaup Þórkötlu ekki talin með voru kaupsamningar rúmlega 1.300 í maí og hafa ekki verið fleiri síðan í mars 2021 þegar þeir voru 1.695.