Í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins á hugverkaiðnaðinum hér á landi benda samtökin á að í nýlegri skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf komi fram að aukning skattahvata fyrir rannsóknir og þróun hafi haft jákvæð áhrif á fjárfestingar fyrirtækja í rannsóknum og þróun hér á landi. Samkvæmt OECD hafi hvatarnir haft jákvæð áhrif á umfang og afkomu fyrirtækja á þessu sviði hér á landi, leitt til fjölgunar verðmætra starfa og tryggt betri launakjör fyrir starfsfólk. Að mati OECD sé þetta jákvætt þar sem hagsæld þjóða til lengri tíma haldist í hendur við fjárfestingu í rannsóknum og þróun, með öðrum orðum í nýsköpun.
OECD bendi á að fjárfestingar í rannsóknum og þróun hafi vaxið undanfarin ár samhliða auknum skattahvötum og numið 2,8% af vergri landsframleiðslu á árinu 2021. Til samanburðar hafi hlutfallið verið 2,0% árið 2018. Aukningin stafi eingöngu af auknum fjárfestingum fyrirtækja í rannsóknum og þróun. Þetta sé jákvæð þróun en um nokkurt skeið hafi það verið markmið íslenskra stjórnvalda að fjárfesting í rannsóknum og þróun í hagkerfinu aukist. Hlutfallið sé hærra hér á landi en í flestum ríkjum OECD.
„Ólíkt greinum sem byggja alfarið á auðlindum er hugverkaiðnaður að mestu leyti án landamæra og það er því auðveldara fyrir þessi fyrirtæki að færa starfsemi á milli landa. Ef skattahvatar rannsóknar- og þróunarkostnaðar verða lækkaðir aftur má gera ráð fyrir að sum íslensk fyrirtæki í hugverkaiðnaði sjá hag sínum betur borgið annars staðar. Það má ekki gleyma því að við eigum í mikilli samkeppni við aðrar þjóðir á þessu sviði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Áhrif skattahvata komu strax fram
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi munu framlög vegna rannsóknar og þróunar verða 15 milljarðar króna á næsta ári. Í greiningunni segir að mikilvægt sé að setja þessa tölu í samhengi. Þróun síðustu ára sýni glöggt að auknir skattahvatar leiði til aukinna fjárfestinga fyrirtækja í rannsóknum og þróun sem leiði aftur til hærri framlaga ríkisins.
„Áhrif skattahvatanna komu strax fram þar sem fyrirtækin tóku hratt við sér og juku fjárfestingu í rannsóknum og þróun,“ segir Sigurður og vísar til meðfylgjandi grafs sem sýnir fjárfestingar fyrirtækja og framlög ríkisins í rannsóknum og þróun frá árinu 2013.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild sinni hér.