Fjórir stærstu útgjaldaliðir íslenska ríkisins eru fjárframlög til almannatrygginga, laun, kaup á vörum og þjónustu og að síðustu vaxtakostnaður, þessi útgjöld nema samtals tæplega 80% af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.
Þetta kemur fram í viðtali í Viðskiptablaðinu við Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Samtökin skiluðu í síðustu viku viðmiklum sparnaðartillögum til ríkissjórnarinnar.
Sigríður Margrét bendir á að launakostnaður sé annar stærsti kostnaðarliður ríkisútgjaldanna.
„Við í atvinnulífinu vitum að launaþróun á Íslandi undanfarna áratugi hefur ekki verið í takt við innistæðu en ef við höldum áfram á réttri leið, höldum áfram að gera breytingar á vinnulaginu við gerð kjarasamninga þá verður hægt að ná raunverulegum árangri. Það er tómt mál að tala um hagsýni í opinberum rekstri ef ekki tekst að koma böndum á launakostnað ríkisins.“
Hvað launakostnaðinn varðar þá þarf ríkið þarf að gera tvennt að sögn Sigríðar Margrétar. Það þarf að taka á sérréttindum opinberra starfsmanna og endurskoða umgjörðina í kringum kjarasamningsgerðina.
„Fyrirtæki á almennum vinnumarkaði eru að keppa við ríkið um hæft starfsfólk og sérréttindi opinberra starfsmanna eru hluti af launakjörum þeirra. Virði þeirra sérréttinda jafngilda 10-19% launahækkun í þeim greiningum sem hafa verið birtar bæði af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Viðskiptaráði Íslands. Sá kostnaður sem hlýst af sérréttindum opinberra starfsmanna skapar viðvarandi þrýsting í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði sem stuðlar að ósjálfbærum launahækkunum.“
Að sögn Sigríðar Margrétar er nauðsynlegt að endurskoða lagaumgjörð vinnumarkaðarins, bæði lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulög og lög um stéttarfélög og vinnudeilur til þess að auka sveigjanleika og skilvirkni, bæði í opinberum rekstri og við gerð kjarasamninga.
„Góður árangur í kjarasamningum, líkt og öllum öðrum samningum, mun hér eftir sem hingað til byggja á trausti á milli samningsaðila, samningsfrelsið verður alltaf leiðarstefið en hlutverk stjórnvalda þegar kemur að kjarasamningsgerð er að skapa umgjörð sem stuðlar að skilvirkri samningagerð. Sjálfbær launaþróun eru almannagæði – ávinningurinn myndi birtast í formi minni verðbólgu, lægra vaxtastigs og meiri stöðugleika.“
Ítarlegt viðtal er við Sigríði Margréti í Viðskiptablaðinu, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.