Áform um setningu heildarlaga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum, einkum á sérlega viðkvæmum sviðum með tilliti til þess hvort þær samræmist þjóðaröryggi og allsherjarreglu, voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði. Í áformunum felst að framkvæmd verði ítarleg og fagleg greining stjórnvalda á því hvort af tilteknum beinum erlendum fjárfestingum stafi hætta fyrir þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa gert alvarlegar athugasemdir við áformin, sem skorti samhengi við gildandi rétt og mat á efnahagslegum áhrifum.

Bein erlend fjárfesting gegnir mikilvægu hlutverki til að hægt sé að ná fram þjóðhagslegri áhættudreifingu. Áhættudreifingin felst þá í því að erlendu fjárfestarnir hafi gerst hluthafar í fyrirtækinu og þannig orðið afgangskröfuhafar, enda bera erlendu fjárfestarnir þá áhættuna með fyrirtækinu ef harðnar á dalnum. Áhrif beinnar erlendrar fjárfestingar er því á öndverðum meiði við kvikt fjármagn sem getur flætt inn í öðrum tilgangi.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins um áformin kemur fram að í Efnahagskönnun OECD um Ísland, sem gefin var út í fyrra, hafi komið fram að Ísland sé með einna ströngustu reglurnar þegar komi að erlendi fjárfestingu og sé langt yfir meðaltali OECD ríkjanna. „Aðeins tvö OECD-ríki búa við meiri hömlur, en það eru NýjaSjáland og Mexíkó. Raunar eru hömlur á erlenda fjárfestingu hér á landi um þrefalt meiri en gengur og gerist meðal OECDríkja og jafnframt ríkja meiri hindranir hér á landi í öllum atvinnugreinaflokkum að fjölmiðlum undanskildum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.