Íbúðauppbygging á landinu er langt frá því að uppfylla íbúðaþörfina. Þetta kom fram í máli Jónasar Atla Gunnarssonar, hagfræðings hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), á fundi um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfa.

HMS hefur birt nýja greiningu á stöðu íbúðauppbyggingar á landinu, þar sem til grundvallar liggur talning allra íbúða í byggingu. Slík greining, sem fram fer í mars og september ár hvert, veitir yfirsýn yfir umfang framkvæmda, dreifingu þeirra milli landshluta og þróun á mismunandi stigum byggingarferlisins.

10% samdráttur

Í greiningu HMS kemur fram að á landinu öllu eru tæplega 7.200 íbúðir í byggingu. Á sama tíma fyrir ári síðan voru tæplega 8.000 íbúðir í byggingu. Íbúðum í byggingu hefur því fækkað um 10% á einu ári.

Dregið hefur úr íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu síðan síðasta talning var gerð í september. Mest hefur dregið úr framkvæmdum í Kópavogi og Hafnarfirði og nemur samdrátturinn um 20% í hvoru sveitarfélagi. Í Reykjavík nemur samdráttur í íbúðauppbyggingu um 6.5% á milli talninga. Ekki hafa færri íbúðir verið í byggingu í Reykjavík síðan HMS byrjaði að telja íbúðir í byggingu árið 2021.

Af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er hlutfallslega minnst byggt í Reykjavík og er þá verið að tala um íbúðir í byggingu samanborið við heildarfjölda íbúða í borginni. Hlutfallsleg íbúðauppbygging í borginni er 3,6% og hefur hlutfallið ekki verið lægra í að minnsta kosti fjögur ár. Til samanburðar er þetta hlutfall 6,2% hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en þess má geta að fyrir tveimur árum var þetta hlutfall 10,1% hjá þeim sveitarfélögum.

133% aukning í Ölfusi

Hjá sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er víða mikil uppbygging. Sem dæmi eru 94 íbúðir í byggingu í Ölfusi, sem er 133% aukning síðan í september. Í Vogum eru 97 íbúðir í byggingu, sem er 99% aukning milli talninga. Á Akranesi varð hins vegar 19% samdráttur í byggingu nýrra íbúða. Hlutfallsleg íbúðauppbygging hjá sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins nemur 7,3%.

Á síðasta ári komu yfir 3.665 nýjar íbúðir og fullbúnar íbúðir á fasteignamarkaðinn. Þó þetta hafi verið nokkuð umfram spá HMS var þetta ekki nóg til að uppfylla ætlaða íbúðaþörf, sem metin var yfir 4.000 íbúðir. Þess má geta að íbúðaþörfin byggir aðallega á væntri fólksfjölgun, sem og húsnæðisáætlunum sveitarfélaga landsins. Í spá HMS til ársins 2027 er gert ráð fyrir því að þessi þróun haldi áfram, það er að fjöldi nýrra íbúða verði undir ætlaðri íbúðaþörf.

Teikning af Vesturvin á Héðinsreitnum.
Teikning af Vesturvin á Héðinsreitnum.

Mesta uppbyggingin eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu

HMS birtir upplýsingar um það í hvaða hverfum á höfuðborgarsvæðinu flestar íbúðir séu í byggingu.

Reykjavík:

  • Höfði. Þétting. 380 íbúðir.
  • Valsreitur. Nýtt land. 310 íbúðir.Í
  • Héðinsreitur. Þétting. 196 íbúðir.
  • Vogabyggð. Þétting. 182 íbúðir.

Kópavogur:

  • Kársnes. Þétting. 264 íbúðir.
  • Traðarreitur. Þétting. 180 íbúðir.

Garðabær:

  • Urriðaholt. Nýtt land. 224 íbúðir.
  • Hnoðraholt. Nýtt land. 196 íbúðir.
  • Álftanes. Nýtt land. 106 íbúðir.

Hafnarfjörður:

  • Skarðshlíð. Nýtt land. 1.064 íbúðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.