Félagið Skrímsl ehf., sem er í jafnri eigu meðlima hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, skilaði 14 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, eftir um 2 milljóna tap árið 2020. Rekstrartekjur jukust úr 69 milljónum í 104 milljónir á milli ára. Skráður tilgangur félagsins er rekstur hljómsveitar og hljóðvers, útgáfustarfsemi, tónleikahald, tækjaleiga, heildsala og smásala.
Rekstrargjöld Skrímsl námu 93 milljónum í fyrra. Laun og launatengd gjöld námu 28,8 milljónum króna en ársverk voru 4,5 líkt og árið áður.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 99 milljónir í lok síðasta árs. Skuldir námu samtals um 113 milljónum en þar af var voru skuldir við tengda aðila um 60 milljónir. Eigið fé var neikvætt um 13 milljónir.
Of Monsters and Men varð heimsfræg eftir að hljómsveitin gaf frá sér sína fyrstu plötu My Head Is An Animal árið 2011. Þau fylgdu henni eftir með plötunni Beneath The Skin árið 2015 og Fever Dream árið 2019. Arnar Rósenkranz Hilmarsson, Brynjar Leifsson, Kristján Páll Kristjánsson, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir og Ragnar Þórhallsson eru meðlimir hljómsveitarinnar og eigendur Skrímsl.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.