Zep­bound, nýjasta of­fitu­lyfið frá bandaríska lyfja­fram­leiðandanum Eli Lilly, sýndi betri árangur en Wegovy frá Novo Nor­disk í fyrstu beinu saman­burðar­rannsókn þeirra tveggja.

Rannsóknin sýndi fram á að Zep­bound minnkaði mittis­mál að meðaltali um 18,4 cm á 72 vikum, á meðan Wegovy skilaði 13 cm minnkun.

Rannsóknin, sem var kynnt á Evrópsku of­fituráð­stefnunni í Málaga á Spáni í vikunni, stað­festi yfir­burði Zep­bound á öllum mæli­kvörðum sem metnir voru.

Lyfið leiddi meðal annars til 47% meira þyngdar­taps að meðaltali en sam­keppnis­lyfið en Bloom­berg greinir frá. Árangurinn á mittis­máli skiptir sér­stak­lega máli, þar sem fitusöfnun í kviðnum tengist aukinni áhættu á hjartaáföllum, heila­blóð­falli og sykursýki.

„Það hefur verið sýnt fram á að 5 senti­metra minnkun á mittis­máli getur lækkað blóðþrýsting og bætt efna­skipti,“ sagði Louis Aronne, pró­fessor við Corn­ell-háskóla og læknir við New York-Presbyt­erian-sjúkra­húsið, sem leiddi rannsóknina.

Þrátt fyrir að danska fyrir­tækið Novo Nor­disk hafi verið fyrst á markað með Wegovy og Ozempic hefur Eli Lilly nú tekið for­ystuna í of­fitu­lyfja­með­ferðum í Bandaríkjunum með Zep­bound.

Sam­kvæmt greiningu frá BMO Capi­tal Markets er sykursýkis­lyf Lilly, Moun­jaro, einnig á góðri leið með að ná Ozempic að vinsældum innan árs.

Í rannsókninni voru þátt­tak­endur að meðaltali 113 kíló.

Um 65% þeirra voru konur, hlut­falls­lega færri en í mörgum fyrri of­fitu­rannsóknum.

Al­mennt virðast konur missa meiri þyngd en karlar með bæði Zep­bound og Wegovy, að því er fram kemur í gögnum fyrir­tækjanna.

Veru­legt líkams­þyngdar­tap

Þeir sem tóku Zep­bound voru tvisvar sinnum lík­legri til að missa að minnsta kosti 25% af líkams­þyngd sinni saman­borið við Wegovy-hópinn.

Um 80% þeirra sem tóku Zep­bound misstu meira en 10% af þyngd sinni, en það sama átti við um 60% í Wegovy-hópnum.

Auka­verkanir voru svipaðar milli hópa, en fleiri Zep­bound-not­endur greindu frá sárs­auka eða bólgu á stungustað. Ör­lítið fleiri í Wegovy-hópnum hættu með­ferð vegna óg­leði eða upp­kasta.

Að mati pró­fessors Aronne, sem hefur einnig ráðlagt Novo Nor­disk, eru niður­stöðurnar af­gerandi en gefa engu að síður rúm fyrir bæði lyfin á markaðnum.

„Ég er ekki að reyna að gera lítið úr áhrifum semaglútíðs [virka efnið í Wegovy]. Flestir ein­staklingar með of­fitu ná góðum árangri með það,“ sagði hann.

Gijs Goos­sens, pró­fessor í hjarta- og efna­skipta­sjúk­dómum við Maastricht-háskóla, sem ekki tók þátt í rannsókninni, sagði að læknar muni lík­lega þurfa að skoða frekari niður­stöður um áhrif lyfjanna eftir kyni, aldri og líkams­ástandi áður en þeir taka ákvörðun um með­ferð.

„Hvaða lyf hentar hverjum verður lík­lega ein­stak­lings­bundin ákvörðun.“

Eli Lilly hyggst birta frekari niður­stöður um áhrif Zep­bound á sér­staka sjúklinga­hópa á ráð­stefnu bandarísku sykursýki­sam­takanna (ADA) í Chi­cago næsta mánuð.

Þar mun fyrir­tækið einnig fjalla um langtímaáhrif lyfsins á veikindi og dánar­tíðni.