Zepbound, nýjasta offitulyfið frá bandaríska lyfjaframleiðandanum Eli Lilly, sýndi betri árangur en Wegovy frá Novo Nordisk í fyrstu beinu samanburðarrannsókn þeirra tveggja.
Rannsóknin sýndi fram á að Zepbound minnkaði mittismál að meðaltali um 18,4 cm á 72 vikum, á meðan Wegovy skilaði 13 cm minnkun.
Rannsóknin, sem var kynnt á Evrópsku offituráðstefnunni í Málaga á Spáni í vikunni, staðfesti yfirburði Zepbound á öllum mælikvörðum sem metnir voru.
Lyfið leiddi meðal annars til 47% meira þyngdartaps að meðaltali en samkeppnislyfið en Bloomberg greinir frá. Árangurinn á mittismáli skiptir sérstaklega máli, þar sem fitusöfnun í kviðnum tengist aukinni áhættu á hjartaáföllum, heilablóðfalli og sykursýki.
„Það hefur verið sýnt fram á að 5 sentimetra minnkun á mittismáli getur lækkað blóðþrýsting og bætt efnaskipti,“ sagði Louis Aronne, prófessor við Cornell-háskóla og læknir við New York-Presbyterian-sjúkrahúsið, sem leiddi rannsóknina.
Þrátt fyrir að danska fyrirtækið Novo Nordisk hafi verið fyrst á markað með Wegovy og Ozempic hefur Eli Lilly nú tekið forystuna í offitulyfjameðferðum í Bandaríkjunum með Zepbound.
Samkvæmt greiningu frá BMO Capital Markets er sykursýkislyf Lilly, Mounjaro, einnig á góðri leið með að ná Ozempic að vinsældum innan árs.
Í rannsókninni voru þátttakendur að meðaltali 113 kíló.
Um 65% þeirra voru konur, hlutfallslega færri en í mörgum fyrri offiturannsóknum.
Almennt virðast konur missa meiri þyngd en karlar með bæði Zepbound og Wegovy, að því er fram kemur í gögnum fyrirtækjanna.
Verulegt líkamsþyngdartap
Þeir sem tóku Zepbound voru tvisvar sinnum líklegri til að missa að minnsta kosti 25% af líkamsþyngd sinni samanborið við Wegovy-hópinn.
Um 80% þeirra sem tóku Zepbound misstu meira en 10% af þyngd sinni, en það sama átti við um 60% í Wegovy-hópnum.
Aukaverkanir voru svipaðar milli hópa, en fleiri Zepbound-notendur greindu frá sársauka eða bólgu á stungustað. Örlítið fleiri í Wegovy-hópnum hættu meðferð vegna ógleði eða uppkasta.
Að mati prófessors Aronne, sem hefur einnig ráðlagt Novo Nordisk, eru niðurstöðurnar afgerandi en gefa engu að síður rúm fyrir bæði lyfin á markaðnum.
„Ég er ekki að reyna að gera lítið úr áhrifum semaglútíðs [virka efnið í Wegovy]. Flestir einstaklingar með offitu ná góðum árangri með það,“ sagði hann.
Gijs Goossens, prófessor í hjarta- og efnaskiptasjúkdómum við Maastricht-háskóla, sem ekki tók þátt í rannsókninni, sagði að læknar muni líklega þurfa að skoða frekari niðurstöður um áhrif lyfjanna eftir kyni, aldri og líkamsástandi áður en þeir taka ákvörðun um meðferð.
„Hvaða lyf hentar hverjum verður líklega einstaklingsbundin ákvörðun.“
Eli Lilly hyggst birta frekari niðurstöður um áhrif Zepbound á sérstaka sjúklingahópa á ráðstefnu bandarísku sykursýkisamtakanna (ADA) í Chicago næsta mánuð.
Þar mun fyrirtækið einnig fjalla um langtímaáhrif lyfsins á veikindi og dánartíðni.