Loku verður skotið fyrir það að einstaklingar og lögaðilar geti gert sér það að leik að oftelja viljandi skattstofna með það að marki að gera síðan endurkröfu á ríkið og njóta ávöxtunar á féð í formi dráttarvaxta. Þetta er meðal þess sem felst í frumvarpi að nýjum lagabálki um innheimtu opinberra skatta og gjalda.

„Maður hefur svo sem heyrt vangaveltur sem þessar frá skattayfirvöldum áður. Tilraunir sem þessar kalla þó á það að menn séu að taka peninga til hliðar og því fylgir fjármagnskostnaður. Meðan  þeim er ráðstafað til ríkisins nýtast þeir ekki í rekstri á meðan svo ég tel að hvatinn til að stunda slíkt sé afar takmarkaður,“ segir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur hjá SVÞ og SAF.

Benedikt bendir á að þegar núgildandi endurgreiðslulög voru sett hafi verið vangaveltur um það að dráttarvextir yrðu skilyrðislaust greiddir þegar ofgreiðsla hefði átt sér stað. Hins vegar hafi sú leið verið farin að gjaldendur þyrftu að setja fram kröfu um endurgreiðslu til að fyrirbyggja að ekki væri verið að oftelja að gamni sínu.

„Nú verður það stjórnvalda að ákveða hvenær ofgreiðsla virkjar rétt til dráttarvaxta. Það er ekki hægt að sætta sig við slíkt. Af skoðun á dómaframkvæmd má ráða að þeir sem eignast inneign samkvæmt dómum eru undantekningalaust gjaldendur sem hafa staðið rétt að greiðslu skatta og greitt þær kröfur sem yfirvöld hafa sett fram. Þessi hópur á ekki að lýða fyrir það bótalaust með því að fá ekki dráttarvexti á ofgreiðslur eða oftekin gjöld,“ segir Benedikt.

Benedikt gefur einnig lítið fyrir þær röksemdir að rétt sé að skerða rétt til dráttarvaxta þar sem í einhverjum tilvikum viti gjaldendur ekki að þeir eigi rétt á þeim. Almennt sé gert ráð fyrir því að lögin séu aðgengileg öllum svo menn geti kynnt sér þau og hagað sér í samræmi við það. „Þessi röksemdarfærsla gæti í raun átt við um allt. Sumir gera sér grein fyrir því að þeir séu að brjóta lög eða reglur meðan aðrir gera það óafvitandi. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir því að borgarinn hafi þekkingu á gildandi rétti, sérstaklega því sem er honum viðkomandi í leik eða starfi. Hér er stefnt að því að skerða réttindi allra því að í einhverjum tilfellum átta sumir sig ekki á því að þeir eigi þau. Það er mjög skringileg aðgerð,“ segir Benedikt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .