Hluta­bréfa­verð Icelandair leiddi hækkanir á aðal­markaði í dag er gengi flug­félagsins fór upp um 6% í 270 milljón króna við­skiptum.

Icelandair birti farþegatölur fyrir opnun markaða í morgun en Icelandair hefur flutt yfir 4 milljónir farþega á árinu sem er um 8% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Flug­félagið flutti flutti 409 þúsund farþega í október­mánuði sem er um 12% fleiri farþegar en á sama tíma í fyrra en í kaup­hallar­til­kynningu félagsins sagði að eftir­spurn eftir ferðum til Ís­lands hefði aukist á nýjan leik.

Dagslokagengi Icelandair var 1,15 krónur.

Gengi Eim­skips tók einnig kipp í við­skiptum dagsins en gáma­flutningafélagið birti upp­gjör eftir lokun markaða í gær. Sam­kvæmt ný­birtu upp­gjöri félagsins má rekja af­komuna til góðs tekju­vaxtar.

Tekjur Eim­skips jukust um 18,6 milljónir evra frá fyrra ári og námu 220,6 milljónum evra á fjórðungnum, sem sam­svarar um 33 milljörðum króna á gengi dagsins.

Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljónum evra saman­borið við 16,6 milljónir evra fyrir sama tíma­bil árið 2023. Sé miðað við gengi dagsins hagnaðist Eim­skip um 2,1 milljarð króna á fjórðungnum.

Hluta­bréf í Eim­skip hækkuðu um 5% í 374 milljón króna veltu og var dagsloka­gengi félagsins 393 krónur. Gengi Eim­skips hefur nú hækkað um 25% frá miðjum október.

Lang­mesta veltan í dag var með bréf Marels en gengi félagsins hækkaði um tæp 2% í 1,8 milljarða króna veltu.

Dagsloka­gengi Marels var 594 krónur sem er hærra en til­boðsverð JBT í alla hluti félagsins, miðað við fast skipti­gengi evru og krónu í við­skiptunum, ákveði hlut­hafi að þiggja einungis reiðufé fyrir sína hluti.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um eru er­lendir fjár­festinga­sjóðir að skort­selja bréf í JBT og kaupa í Marel á móti til að festa inn hagnað á gengis­mun í við­skiptunum.

Hluta­bréfa­verð Eikar leiddi lækkanir á aðal­markaði er gengi félagsins fór niður um rúm 2% í 83 milljón króna við­skiptum.

Úr­vals­vísi­talan hækkaði um 0,85% og var heildar­velta á markaði 8,2 milljarðar.