Tuttugu og fimm ár eru liðin frá því að Goldman Sachs fór á markað samhliða sögulegu frumútboði árið 1999. David Solomon, forstjóri Goldman Sachs, hóf störf hjá fjárfestingabankanum sama ár en samkvæmt LEX skoðanapistli Financial Times var Solomon duglegur að minna áheyrendur á þessa staðreynd á fjárfestafundi á mánudaginn.
Samkvæmt uppgjörinu jókst hagnaður fjárfestingarbankans á öðrum ársfjórðungi um 150% frá sama tímabili í fyrra og nam 3 milljörðum dala.
Þrátt fyrir að afkoma bankans var umfram væntingar greinenda skrifar LEX að uppgjörið eigi ekkert í uppgjöri bankans á útboðsárinu.
Fjárfestingabankastarfsemi Goldman Sachs jókst duglega á síðustu þremur mánuðum og er afkoman af henni um 27% betri á fyrri helmingi árs en í fyrra.
Hins vegar var ársávöxtun á eigin fé um 11% sem hlutfall af rekstrarkostnaði og launum. „Í þá gömlu góðu daga á árinu 1999 var hlutfallið 31%“ skrifar LEX.
Mikilvægur munur á árinu 1999 og nú er að Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hert eiginfjárkröfur banka verulega eftir efnahagshrunið 2008.
Þegar Goldman Sachs birti fyrsta árshlutauppgjörið sitt eftir skráningu var eigið fé bankans aðeins 8 milljarðar dala á móti 245 milljörðum dala í eignum.
Skuldsetningarhlutfall bankans var 31%. Í dag er eigið fé bankans 119 milljarðar og skuldsetningarhlutfallið er 14%.
Eitt hefur þó ekki breyst með árunum og það er að Goldman Sachs er enn leiðandi á heimsvísu þegar kemur að fjárfestingarbankastarfsemi og verðbréfaviðskiptum.
Hins vegar hafa fjárhags- og reglugerðarvandræði hamlað sókn bankans á síðustu árum. Goldman ákvað nýverið að mótmæla niðurstöðu álagsprófs Seðlabanka Bandaríkjanna sem sýndi að fjárfestingabankinn gæti þurft að binda meira eigið fé, sem myndi draga úr möguleikum bankans á endurkaupum og arðgreiðslum.
Goldman Sachs hefur eytt síðustu árum í að reyna stilla sér upp sem fjárfestingabanki auðugra einstaklinga sem og stærsta eignastýringarfyrirtæki heims. Bankinn er nú með eignir að verðmæti 3 billjónir (e. trillion) í stýringu.
Fortíðarþrá forstjórans skiljanleg
Á fjárfestafundi gærdagsins viðurkenndi Solomon að arðsemi eigin fjár væri enn aðeins um 10% og lýsti hann stöðu bankans þannig að hann væri „á ferðalagi að fyrirheitinni ávöxtun“
Á fyrsta viðskiptadegi eftir skráningu Goldman rauk hlutabréfaverð fjárfestingabankans úr 53 dölum í 73 dali á einum tímapunkti en það gaf til kynna að hlutfall bókfærðs virðis og markaðsvirðis væri nálægt 5x.
Í dag er hlutfallið 1,5x en miðað við núverandi fjármála- og efnahagsumhverfi telst það ekki slæmt en að mati LEX útskýrir þetta kannski fortíðarhyggju forstjórans á fjárfestafundinum.