Um 254 þúsund ný störf urðu til í Bandaríkjunum í síðasta mánuði samkvæmt gögnum frá vinnumálaráðuneytinu en The Wall Street Journalgreinir frá.
Spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir um 150 þúsund nýjum störfum og benda því gögnin til mun meiri umsvifa á vinnumarkaðinum vestanhafs en gert var ráð fyrir.
Atvinnuleysi mældist 4,1% sem er 0,1% lægra en gert var ráð fyrir.
Bandaríski seðlabankinn ákvað að lækka vexti um 50 punkta í síðasta mánuði en meðal þess sem var horft til var hægari umsvifa á vinnumarkaðinum sem væri vísbending um kólnandi hagkerfi.
Að mati The Wall Street Journal verða vextir lækkaðir á næsta fundi bankans í nóvember en hverfandi líkur eru á því að vextir verði lækkaðir um 50 punkta líkt og í síðasta mánuði.
Samkvæmt Bloomberg benda vaxtaskiptasamningar til þess að fjárfestar séu að veðja á 25 punkta lækkun.
Ávöxtunarkrafa á tveggja ára ríkisskuldabréfum Bandaríkjanna rauk upp um 17 punkta í 3,87% eftir að gögnin voru birt. Þá fór krafan á tíu ára bréfin upp um 12 punkta í 3,96%.