Skerðingar á raforku á fyrstu mánuðum þessa árs munu hafa í för með sér að útflutningstekjur Íslands verða ríflega 8-12 milljörðum króna lægri en ella samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins (SI) sem fjallað erum í Viðskiptablaði vikunnar.
Skerðingarnar gæti auk þess haft óbein neikvæð áhrif á iðnaðarfyrirtæki til framtíðar sem ekki eru tekin fyrir í mati SI.
„Ef við lítum til framtíðar þá eru þessar skerðingar auðvitað merki um ótrygga orku sem geta haft áhrif á viðskiptasamninga og þannig gjaldeyristekjur til framtíðar,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.
Auk fjárhagslegra áhrifa raforkuskerðinga segir hann áhyggjuefni að fiskimjölsverksmiðjur og ákveðin iðnfyrirtæki þurfi að keyra starfsemi sína áfram af innfluttri dísilolíu vegna skerðinga. Þar með sé verið að skipta út grænni orku fyrir mengandi orkugjafa í starfsemi útflutningsfyrirtækja og í raun fara í öfug orkuskipti með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum.
Tækifæri til atvinnuuppbyggingar glatist
Þröng staða í raforkumálum hefur einnig í för með sér að ekki er hægt að nýta ýmis tækifæri til atvinnuuppbyggingar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við Morgunblaðið á dögunum að ónógt orkuframboð hefði orðið til þess fyrirtækið hafi ekki getað skrifað undir orkusamninga vegna mjög áhugaverðra verkefna á liðnum árum.
„Við erum ekki bara að fást við óöryggi í afhendingu raforku heldur er líka orkuskortur sem gerir það að verkum að við getum ekki nýtt þau tækifæri til atvinnuuppbyggingar sem við ellegar gætum,“ segir Ingólfur. „Til þess að mæta þessum orkuskorti þarf að afla meiri orku auk þess að efla flutningskerfið til að nýta betur þá orku sem fyrir er í landinu.“
Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.