Síldarvinnslan segir frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuráðherra um veiðigjald fela í sér „ofurskattlagningu“ á íslenskan uppsjávariðnað sem eigi sér enga hliðstæðu meðal annarra fiskveiðiþjóða í heiminum. Þetta kemur fram í minnisblaði félagsins um áhrif frumvarpsins.

Samkvæmt áætlun félagsins fyrir árið 2025 hækka veiðigjöld þess um 1,5 milljarða króna á þann afla sem fer gegnum uppsjávarvinnslur félagsins samkvæmt frumvarpinu, úr ríflega 1,3 milljörðum í 2,9 milljarða króna.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, telur áætlun stjórnvalda um tvöföldun veiðigjalda vera algjört vanmat þegar kemur að uppsjávaraflanum. Auk þess sé umræða um verðlagningu afla á villigötum.

„Veiðigjöld hafa nú þegar tvöfaldast á milli áranna 2024 og 2025, en það hefði að mínu mati verið full ástæða fyrir stjórnvöld að greina ástæður þeirrar hækkunar [‏‏‏…] Ef áhrif frumvarpsins eru skoðuð myndi þetta þýða þreföldun á árinu 2024 og allt að því fimmföldun árið 2025. SFS metur þetta ívið lægra eða rúmlega fjórföldun frá núverandi kerfi.“

„Tal um tvöföldun á ekki við rök að styðjast og yfirlýsingar um að útgerðin þoli þetta og sé aðeins að stunda hræðsluáróður er villandi svo ekki sé meira sagt. Engin atvinnugrein þolir viðlíka hækkanir án þess að grípa til róttækrar hagræðingar, einkum og sér í lagi þegar ekki er mögulegt að fleyta hækkunum, a.m.k. að hluta til, út í verðlag. Slíkt er nefnilega ekki í boði hér.“

Mynd tekin úr minnisblaðinu. SVN segir að ef áhrif frumvarpsins séu skoðuð myndi áhrif frumvarpsins þýða allt að því fimmföldun veiðigjalda milli ára.

Gunnþór segir að svo virðist sem engin greining hafi farið fram á vegum stjórnvalda við gerð frumvarpsins á því hvort hækkun veiðigjalda gæti haft áhrif, hvað þá neikvæð áhrif á samfélagsspor sjávarútvegsins.

Bent er á að uppsjávarvirðiskeðjan á Íslandi samanstandi af 21 uppsjávarskipi, átta manneldisvinnslum, svo og tíu fiskmjölsverksmiðjum. Allt séu þetta fjárfrekar fjárfestingar þar sem fjárfest hefur verið gríðarlega á undanförnum árum til að auka verðmæti uppsjávaraflans. Á bak við þetta séu um 950 starfsmenn og með fjárfestingunum hafi fylgt verðmætari störf.

Verið að bera saman epli og appelsínur.

Gunnþór gagnrýnir þá nálgun stjórnvalda að miða við viðmiðunarverð í Noregi við útreikning veiðigjalda. Hann segir makrílinn sem veiddur er af Íslendingum vera allt annan en þann sem Norðmenn veiða – bæði hvað varðar gæði, veiðisvæði og markaði.

„Stjórnvöld eru í reynd að bera saman epli og appelsínur,“ segir hann.

Þá sé verið að bera saman mjög mismunandi nálgun á stýringu virðiskeðjunnar á Íslandi og í Noregi, þar sem hún er á einni hendi á Íslandi‏. Auk þess séu íslenskar útgerðir einfaldlega með mun minna magn af uppsjávarfiski heldur en Norðmenn.

Framlegð skipa skipa þurrkist upp

Í minnisblaðinu er tekið dæmi af rekstri uppsjávarskipsins Barkar NK sem sé eitt fullkomnasta skip flotans. Þar kemur fram að ef veiðigjöldin verða í samræmi við frumvarp ráðherra, muni framlegð skipsins nema einungis 1,1% – eða 22 milljónum króna – miðað við árstekjur upp á rúma tvo milljarða. Til samanburðar væri framlegð upp á 18,3% miðað við veiðigjöld í núverandi mynd.

„Í öllum sviðsmyndum verður tap á rekstri skipsins miðað við boðað frumvarp,“ segir í skjalinu. Samkvæmt útreikningum Síldarvinnslunnar er gert ráð fyrir að vaxtakostnaður og afskriftir fari langt fram úr þeirri framlegð sem eftir stendur.

Framlegð Barkar NK miðað við ólíkar sviðsmyndir eftir veiðigjöldum. Miðað er við rauntölur úr áætlunum félagsins fyrri Börk.

Vísar „leiðréttingu“ á bug

Gunnþór segir samþætting veiða og vinnslu sé hornsteinn íslensks sjávarútvegs og lykillinn að samkeppnishæfni í greininni. Boðaðar breytingar séu til þess fallnar að kljúfa á þessi tengsl en þær fela meðal annars í sér að viðmiðunarverð veiðigjaldsins styðjist annars vegar við verð á íslenskum fiskmörkuðum og hins vegar verð á norskum fiskmörkuðum.

Hann vísar á bug þeim röksemdum að með því að útfæra veiðigjaldið með þessum hætti sé verið „leiðrétta“ eitthvað.

„Verðlagning á uppsjávarafla frá skipi miðast við að lágmarki 33% af afurðaverðmæti sé greitt fyrir manneldisfisk og 55% fyrir bræðslufisk. Eru þessi verð í samkomulagi við sjómenn og hafa verið um áratugi. Verðlagsstofa skiptaverðs fylgist með verðunum og er farið yfir allar tölur með sjómönnum eftir vertíð og öll útflutningsverð þannig upp á borðum. Allt tal um að þetta sé einhliða í höndum útgerða er því rangt.

Það er afar villandi þegar þessi skattahækkun er dulbúin sem svokölluð leiðrétting. Slíkt bendir til þess að eitthvað hafi verið rangt og þurfi að leiðrétta. Það er ekki staðan. Enn fremur er skattahækkunin falin með villandi umræðu um „rétt verð“ eða „heimsmarkaðsverð“. Það er ekki til á svona hráefni enda ekki um einsleita vöru að ræða.“