Stöðugur söluþrýstingur hefur verið á íslenskum hlutabréfum síðan að Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá innflutningstollum Bandaríkjanna á öll lönd heimsins.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hefur nú lækkað um 8% síðustu tvo viðskiptadaga.
Davíð Björnsson, greiningaraðili í verðbréfamiðlun Íslandsbanka, segir að um ofviðbrögð sé að ræða á markaði.
„Það er keðjuverkun í gangi, fólk hefur farið af stað og heldur síðan bara áfram,“ segir Davíð.
Að hans sögn eru fjárfestar um þessar mundir að endurmeta áhættuna af eignum sínum vegna óvissu í alþjóðastjórnmálunum og fleira.
„Það sem lýsir þessu er bara áhættufælni vegna óvissuástands. Einhverjum líður kannski ekki vel með peninginn inni á markaðinum þegar slík óvissa er í gangi, á bak við þessar lækkanir er þó ekki mjög mikil velta,” segir Davíð.
„En það er ekkert rökrétt í þessu. Markaðurinn (OMXI15 vísitalan) er búinn að lækka meira hér en í Bandaríkjunum eftir að tollarnir komu á,“ segir Davíð.
Lágmarkstollar, 10%, voru lagðir á íslenskar útflutningsvörur til Bandaríkjanna en eins og Viðskiptablaðið greindi frá eru íslensk lyf og lækningarvörur undanskildar þeim tollum.
Undir þá skilgreiningu falla bæði lyf framleidd af Alvotech og Oculis, vörur á borð við sáraumbúðirnar sem Kerecis framleiðir, stoðtæki Össurar og svefnrannsóknatæki Nox Medical.
Um er að ræða stærsta einstaka vöruflokkinn í vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna í fyrra, tæki og vörur til lækninga.
Vöruflokkurinn nam um 39 milljörðum króna af 110 milljarða króna heildarvöruútflutningi til Bandaríkjanna.
Davíð bendir á í þessu samhengi að Alvotech hækkaði í viðskiptum erlendis en lækkaði í viðskiptum í kauphöll Íslands í gær.
„Það segir alveg eitthvað um stöðuna á íslenska markaðinum. Íslenski markaðurinn er stundum svolítið viðkvæmur fyrir sveiflum,“ segir Davíð.
Að hans sögn eru afar fáir á kauphliðinni að svo stöddu en mögulega munu fjárfestar sjá kauptækifæri eftir lækkanir síðustu sólarhringa.
„Það er enginn að setja peninginn inn á markaðinn núna þannig það er bara verið að taka pening út af markaðinum. Það munu margir sjá tækifæri í þessu og það er ekki ólíklegt að við munum sjá leiðréttingu á einhverjum tímapunkti,“ segir Davíð og bætir við að margir séu þó á hliðarlínunni enn sem komið er.