Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,88% í viðskiptum dagsins og lokaði í 2419,88 stigum.
Vaxtarfélögin Amaroq, Oculis og Alvotech leiddu hækkanir sem gæti verið merki um að áhættufælni fjárfesta sé aðeins að dvína eftir að Trump frestaði tollum sínum um 90 daga.
Hlutabréfaverð Alvotech fór upp um rúm 5% í 93 milljón króna viðskiptum á meðan gengi Amaroq og Oculis fór upp um rúm 4%.
Dagslokagengi Alvotech var 1.110 krónur, Amaroq 131,5 krónur og Oculis 2.160 krónur.
Hlutabréfaverð Haga hækkaði einnig um 4% í 168 milljón króna viðskiptum.
Gengi fjárfestingafélagsins Skeljar hækkaði um rúm 3% líkt og gengi Arion banka.
Hlutabréf útgerðarfélagsins Brims voru þau einu sem lækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins er gengi félagsins fór niður um 1,2% í 12 milljón króna veltu.
Heildarvelta á markaði var 2,1 milljarður.